Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5677
Þetta lokaverkefni er í tveimur hlutum. Annars vegar er fjallað um gildi og kosti útikennslu og útináms fyrir grunnskólanema, einkum í tengslum við kennslu í líffræði og umhverfismennt. Hins vegar var unnið námsefni sem er miðað við útikennslu í kringum Ástjörn í Hafnarfirði. Í fræðilegu greinargerðinni er fjallað um gildi útikennslu, þær námskenningar sem liggja að baki og hvað rannsóknir segja um gildi hennar. Þá er fjallað um þá kennsluhætti sem liggja að baki samningu og uppsetningu kennsluverkefnanna.
Útikennsla og útinám veita nemendum upplifun af náttúrunni og ýta undir frekari tengsl við umhverfið. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að útikennsla stuðli bæði að auknu námi og efli vit- og félagsþroska nemenda. Einnig ýtir útikennsla undir aukna hreyfingu nemenda sem hefur jákvæð áhrif á heilsu þeirra.
Verkefnin eru flokkuð í þrennt eftir aldri nemenda. Þau eru byggð upp í anda svo kallaðrar 5K kennsluaðferðar (e.5E model). Miðað er við 5 þætti í skipulaginu; kveikja, könnunarleiðangur, koma í skilning um, að kafað sé dýpra í efnið og að kunnáttan sé metin. Í seinni hlutanum er einnig að finna ítarefni og tilvísanir í efni um viðfangsefni verkefnanna og ætlað til stuðnings fyrir kennara. Að síðustu er gerð grein fyrir viðhorfskönnun sem lögð var fyrir kennara Áslandsskóla. Könnunin gaf til kynna að námsefni fyrir útikennslu í nágrenni skólans skorti en einnig að kennararnir vilji auka útikennslu við skólann.
Markmið verkefnisins er að ýta undir fræðilega umfjöllun um gildi og kosti útikennslu, ásamt því að tengja námskenningar þeim kennsluaðferðum sem eru algengar í náttúrufræðikennslu. Lokaverkefnið er innlegg í umræðu um útikennslu og nýtist vonandi til umbóta og nýrra hugmynda á þeim vettvangi. Verkefnin eru samin með Áslandsskóla í Hafnarfirði huga, en auðvelt er að aðlaga þau að öðru umhverfi. Það er von mín að þau verði kennurum hvatning og innblástur til frekari útikennslu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
utikennsla_5K_kennsluadferd_BjorgHaraldsdottir.pdf | 56.28 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |