Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5802
Hjúkrunarfræðingar sem starfa við heilsugæslu þurfa að geta unnið sjálfstætt því þeir vinna víða einir og við mismunandi aðstæður í heimahúsum og þurfa oft að taka ákvarðanir án þess að geta ráðfært sig við aðra áður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fræðsluþarfir hjúkrunarfræðinga sem starfa við sárameðferðir á heilsugæslustöðvum á Suðurlandi og athuga hvort að samvinna gæti verið úrræði til að mæta fræðsluþörfum sem væru til staðar. Hjúkrunarfræðingar bera ábyrgð á meðferð sára, en sáragræðsla er flókið ferli margra samverkandi lífeðlisfræðilegra þátta og krefst yfirgripsmikillar þekkingar til að veita viðeigandi meðferð hverju sinni og því mikilvægt að hjúkrunarfræðingar viðhaldi þekkingu sinni. Rannsóknaraðferðin var eigindleg og gagna aflað með rýnihóp sem samanstóð af 12 hjúkrunarfræðingum sem allir höfðu reynslu af sárameðferðum. Þátttakendurnir komu frá öllum heilsugæslustöðvum á Suðurlandi. Gögnin voru greind í þrjú meginþemu og sex undirþemu og sett fram í greiningarlíkani. Meginþemun voru: Takmörkuð þekking eftir grunnnám, Ábyrgð byggð á þekkingu og Samvinna og ráðgjöf og undirþemun voru Mat á sárum, val á umbúðum og annarri meðferð, Sáramiðstöð-Þekkingarmiðstöð, Fræðsluþarfir óuppfylltar, Þekkingaröflun-Þekkingarmiðlun og Hindranir í þekkingaröflun. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þörf var á aukinni fræðslu tengdri öllum grunnþáttum sárameðferðar og að góð samvinna milli fagaðila og stofnana væri leið til að miðla þekkingu og mætti nýta sem fræðsluúrræði. Niðurstöður voru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á viðfangsefninu. Rannsakendur vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar leiði til þess að hægt verði að koma til móts við fræðsluþarfir hjúkrunarfræðinga með aukinni samvinnu og bættu aðgengi að fræðsluefni sem og geti nýst kennurum til að koma auga á þörfina til að gera grunnnám í hjúkrunarfræði gagnsærra.
Lykilhugtök: Sár, sárameðferð, fræðsluþarfir og samvinna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokahandrit til prentunar.pdf | 468.31 kB | Opinn | Skoða/Opna |