is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5803

Titill: 
  • Lífið eftir lifrarígræðslu: lífsgæði, meðferðarheldni og fræðsluþarfir
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Tilgangur: Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að kanna hvernig lifrarþegum reiðir af eftir ígræðsluna. Einblínt var á andlegar upplifanir þeirra, lífsgæði og meðferðarheldni ásamt því að farið var yfir helstu fræðsluþarfir þessa hóps.
    Bakgrunnur: Fjöldi einstaklinga á Norðurlöndum sem fær lifrarígræðslu hefur farið hækkandi undanfarin ár og er lifun þeirra í heildina góð en þó misjöfn eftir undirliggjandi sjúkdómum. Þegar ákvörðun um lifrarígræðslu hefur verið tekin fer af stað langt ferli. Það byrjar með því að einstaklingurinn er settur á biðlista, því næst fer fram undirbúningur og bið eftir að hentugt líffæri finnist. Þegar líffæri finnst fer einstaklingurinn í stóra og hættulega aðgerð sem gerð er erlendis. Þegar einstaklingurinn útskrifast til síns heima eftir tiltekinn tíma fer í gang ævilangt ferli þar sem hann er á ónæmisbælandi meðferð svo lengi sem hið ígrædda líffæri starfar. Hlutverk hjúkrunarfræðinga í þessu ferli er að stuðla að velferð þessara einstaklinga en það gera þeir m.a. með fræðslu, stuðningi og eftirliti.
    Heimildaleit: Fræðilegra heimilda var einkum aflað í gegnum gagnasöfnin CINAHL og ProQuest 5000. Einnig veitti Hildigunnur Friðjónsdóttir, deildarstjóri göngudeildar fyrir ígræðsluþega, munnlegar heimildir. Þar sem takmarkað hefur verið skrifað um lifrarþega sérstaklega er einnig notast við heimildir um líffæraþega almennt og það ber að taka fram að nokkrar heimildanna eru komnar til ára sinna.
    Niðurstöður: Helstu niðurstöður samantektarinnar eru þær að lífsgæði lifrarþega aukast tvímælalaust við það að fá nýja lifur, en margt breytist þó í lífi þeirra eftir aðgerðina. Þá tekur við aðlögunarferli og er mikilvægt að þeir fái aðstoð og stuðning hjúkrunarfræðinga og annarra sérfræðinga við ýmis mál sem upp koma. Meðferðarheldni líffæraþega er slök samkvæmt erlendum rannsóknum en þrátt fyrir það telst hún að öllu jöfnu góð hér á landi. Fræðsluþarfir lifrarþega eru margþættar og þurfa hjúkrunarfræðingar að vera meðvitaðir um allar hliðar ferlisins ef á að fræða þá á sem áhrifaríkastan hátt. Einnig er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar séu meðvitaðir um fræðsluþarfir aðstandenda.
    Ályktanir: Höfundar álíta að veita þurfi þessum vettvangi hjúkrunar athygli vegna þess að talið er að lifrarþegum muni fjölga á næstu árum. Því telja þeir mikilvægt að gera rannsóknir og athuganir meðal lifrarþega hérlendis til að fá betri yfirsýn yfir hvernig þeim reiðir af. Einnig líta höfundar svo á að aðstandendur séu afar mikilvægir lifrarþegunum, þá sér í lagi á fyrstu mánuðunum eftir aðgerðina. Því þurfi hjúkrunarfræðingar að gæta að því að þeir fái einnig næga fræðslu og stuðning.
    Lykilhugtök: lifrarþegar, hjúkrun, meðferðarheldni, lífsgæði, fræðsluþarfir.

Samþykkt: 
  • 24.6.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5803


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni_ tilbuid_i prentun.pdf408.33 kBOpinnLifid_eftir_lifrarigraedslu_heildPDFSkoða/Opna