Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5809
Tilgangur: Tilgangur þessarar fræðilegu samantektar var að kanna áhrif brjóstagjafar á svefn ungbarna, skoða ýmsa þætti hjá börnum á brjósti svo sem svefnmynstur, hvar barnið sefur, svefnvandamál og tengsl þessara þátta við brjóstagjöf. Markmiðið var að vekja athygli hjúkrunarfræðinga og annarra á mikilvægi fræðslu um tengsl brjóstagjafar og svefnvenja ungbarna.
Bakgrunnur: Ávinningur brjóstagjafar er viðurkenndur víðsvegar um heim og skiptir sköpum fyrir afkomu ungbarna en mælt er með að ungbörn séu eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. Svefn barna er málefni sem snertir alla foreldra og er mikilvægt að þeir fái stuðning og fræðslu er stuðlar að góðum svefnvenjum og farsælli brjóstagjöf.
Rannsóknarspurning: Hefur brjóstagjöf áhrif á svefnvenjur ungbarna?
Rannsóknaraðferð: Heimildaleit fór að mestu fram á rafrænum gagnasöfnum: Chinal, ProQuest, Medline, Ovid, ScienceDirect og PubMed. Einnig var notast við fræðibækur á sviði hjúkrunar.
Niðurstöður: Niðurstöður voru þær að börn á brjósti sofa frekar uppi í rúmi hjá foreldrum sínum og vakna tíðar á næturnar til að drekka samanborið við börn sem nærast á þurrmjólk. Rannsóknir bentu til að það séu viðbrögð foreldra ásamt persónuleika barns fremur en brjóstagjöfin sjálf sem valda þessu svefnmynstri. Ef foreldrar eru mjög fljótir að sinna börnum sínum þegar þau rumska getur það ýtt undir þá hegðun að þau vakni sífellt oftar. Foreldrar ættu því að ganga úr skugga um að barnið sé vaknað áður en því er sinnt. Einnig bentu niðurstöður til að auka þyrfti fræðslu til foreldra um hvaða aðrir þættir en hungur geti valdið því að barn grætur.
Ályktun: Rannsakendur draga þá ályktun að auka þurfi fræðslu til foreldra um hvaða þættir stuðli að góðum svefnvenjum barna ásamt farsælli brjóstagjöf. Svefnvandamál barna eru algeng og þróast yfirleitt á fyrsta hálfa árinu. Með aukinni fræðslu mætti draga verulega úr þeim en þar eru hjúkrunarfræðingar í ungbarnavernd í lykilstöðu. Svefnvandamál eru streituvaldandi fyrir fjölskyldur og ekki víst að ungar mæður átti sig á alvarleika ástandsins, því er það skoðun rannsakenda að skima ætti fyrir svefnvandamálum á svipaðan hátt og gert er fyrir fæðingarþunglyndi, ásamt því að kynna þau úrræði sem í boði eru. Þá er einnig íhugunarefni hversu efnið hefur verið lítið rannsakað upp á síðkastið og spyrja rannsakendur sig hvort hjúkrunarfræðingar hafi ekki áhuga á málefninu.
Lykilhugtök: Brjóstagjöf, ungbarn, svefnmynstur, að sofa í rúmi foreldra, svefnvandamál, svefníhlutun, fræðsla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif brjóstagjafar á svefnvenjur ungbarna.pdf | 425,76 kB | Opinn | „Áhrif brjóstagjafar á svefnvenjur ungbarna” – heild. | Skoða/Opna |