Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5869
Heimilisofbeldi á sér stað um allan heim og er að finna í öllum stéttum samfélagsins. Margir vilja tengja það fyrst og fremst við vandamál lægri stétta, en þó að það sé algengt á meðal þeirra sem minna fé hafa á milli handanna er það síður en svo bundið við fátækt.
Nú þegar heimurinn allur finnur fyrir áhrifum hruns bankakerfisins frá árinu 2008 er ljóst að áhrifin eru ekki bara efnahagsleg, heldur einnig félagsleg. Ritgerð þessari er ætlað að varpa ljósi á eina af þeim samfélagslegu breytingum sem geta orðið til við örar efnahagslegar breytingar líkt og íslenska þjóðin glímir við nú þegar þetta er skrifað. Fjallað verður um neikvæðar afleiðingar bankahrunsins í formi versnandi fjárhags- og heimilisaðstæðna sem mögulega getur skilað sér beint í verri aðstöðu kvenna í samfélaginu. Byrjað verður að fara lauslega yfir sögu bankahrunsins og hvaða áhrif það hefur haft á íslenskt þjóðfélag. Í ritgerðinni verður sérstök áhersla lögð á konur og félagslega stöðu þeirra í kjölfar aukningar á atvinnuleysi og skorts á fjármagni. Dregin er upp mynd af tilhneigingu til aukins heimilisofbeldis þegar kreppir að og farið verður ofan í hugsanlegar orsakir þess. Konur eru í miklum meirihluta þolenda þegar kemur að heimilisofbeldi en þó eru einnig til dæmi þar sem karlmönnum er misþyrmt. Þegar þetta er skrifað er aðeins rúmlega eitt og hálft ár liðið frá hruni íslensku bankanna sem gerir það að verkum að ekki er til mikið af fræðilegum heimildum eða tölulegum upplýsingum umfjölluninni hér til stuðnings. Af þeim sökum verður stuðst við nokkrar erlendar rannsóknir sem reynt verður að tengja með einhverum hætti við þá stöðu sem komin er upp á Íslandi í dag, ásamt því að vitnað verður í og birtar niðurstöður viðtala við lítinn hóp starfsfólks sem starfar við það að aðstoða konur í einhverskonar vanda sem tengja má við ofbeldi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LOK0273_BA ritgerð Ragna Sif Pétursdóttir.pdf | 318.9 kB | Opinn | "Hver eru áhrif efnahagsþrenginga á ofbeldi gegn konum"-heild | Skoða/Opna |