Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5872
Átta fullvalda ríki hafa lögsögu á norðurskautssvæðinu og eru það Bandaríkin, Kanada, Rússland, Ísland, Finnland, Svíþjóð, Noregur og Danmörk fyrir hönd Færeyja og Grænlands. Sum löndin eru algerlega staðsett innan svæðisins, það er að segja Ísland, Grænland og Færeyjar. Hin löndin hafa aðeins lítinn hluta heildar íbúafjölda sem býr innan norðurskautssvæðisins. Mikill menningarlegur munur stafar ekki síst af mismunandi uppruna íbúanna, og aldalangri einangrun margra samfélaga.Vegna erfiðra veðurskilyrða og samgangna á norðurheimskautinu, þarf fólkið sem býr þar að búa yfir miklum hæfileikum til að aðlagast. Tækninýjungar eins og hvalveiðibúnaður, hundasleðar, umfangsmikil hreindýrarækt og samskipti milli samfélaga, hafa falið í sér miklar breytingar á lifnaðarháttum fólks á norðurslóðum í gegnum tíðina. Á samfélagsgerð, fjölskyldumynstri og atvinnuháttum hafa átt sér stað miklar breytingar og eldri hættir vikið fyrir nýjum. Utanaðkomandi áhrif hafa haft sérstaklega mikil áhrif, til dæmis landnám ríkja, markaðsvæðing og tækninýjungar að sunnan á 20. öld. Áherslubreytingar á alþjóðavettvangi, er varða valddreifingu innan þjóðríkja, ásamt aukinni menntun og þekkingu á lagaumhverfi hafa leitt af sér aukna réttindabaráttu frumbyggja víðsvegar á norðurskautssvæðinu. Hefðir hvað varðar menningu á norðurslóðum eru lifandi afl, það er því ekki vænlegt að láta þrá eða fortíðarhyggju eftir hinu liðna hafa áhrif á mat á styrk menningarhópa og lífvænleika samfélaga á svæðinu. Það má því segja að framtíð fjölbreytts mannlífs á norðurslóðum felist í því að finna jafnvægi milli þess að viðhalda grónum menningarhefðum án þess að hafna nýrri tækni og þekkingu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni.pdf | 934.02 kB | Opinn | "Hvernig félags- og menningarlegar breytingar hafa leikið frumbyggja á norðurskautssvæðinu" - heild | Skoða/Opna |