Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/5903
Viðfangsefni þessa verkefnis er að greina frá rannsókn sem byggir á kenningum Bruner, þar sem skoðuð eru munnleg samskipti barna með annað móðurmál en íslensku í efri bekkjum grunnskóla. Þátttakendur eru fjögur börn í níunda og tíunda bekk, tvær stúlkur og tveir drengir sem eiga það sameiginlegt að hafa byrjað í íslenskum grunnskóla í sjöunda bekk eða síðar og höfðu dvalið á Íslandi a.m.k. í eitt ár þegar rannsóknin fór fram.
Rannsókninni er ætlað að svara eftirfarandi spurningu: Hvernig tekst börnum með annað móðurmál en íslensku í efri bekkjum grunnskóla að eiga munnleg samskipti við íslenska jafnaldra inni í kennslustundum?
Gagnaöflun fór fram með eigindlegri aðferðafræði, þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við hvert barn, farið á vettvang bæði í bóklegar og verklegar kennslustundir og skoðaðar dagbækur barnanna um samskipti. Þau skráðu hjá sér samskipti sín í eina viku. Vettvangsathuganirnar voru framkvæmdar til að bera saman upplifun barnanna og athugun rannsakanda. Markmiðið með dagbókarskrifunum var að skoða dagleg samskipti barnanna á heimilum, í skólanum og utan hans.
Helstu niðurstöður eru að börnin eru í litlum sem engum munnlegum samskiptum við íslenska jafnaldra, en það getur seinkað íslenskunáminu og hindrað félagslega aðlögun þeirra. Börnin vilja læra meiri íslensku og fá tækifæri til að tala hana við íslenska jafnaldra. Þau hafa jákvætt viðhorf til íslenskra jafnaldra og vilja kynnast þeim þegar þau geta talað betri íslensku. Börnin ætla í áframhaldandi nám eftir að grunnskóla lýkur og þrjú ætla að búa hér á landi í framtíðinni vegna þess að þeim finnst gott að búa á Íslandi.
Af þessum niðurstöðum má draga þann lærdóm að skólinn þurfi að leita leiða til að auka munnleg samskipti barna með annað móðurmál en íslensku við íslenska jafnaldra, ásamt því að styrkja félagsleg samskipti þeirra.
Lykilorð: Bruner, margprófanir, viðtöl, dagbækur, vettvangsathuganir, íslenska sem annað tungumál.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sigurveig_Kristjansdottir_MEd_VERKEFNI[1] 15. maí.pdf | 747,05 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |