is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6002

Titill: 
  • Tveggja heima sýn. Ljóðagerð fjögurra skálda frá sjálfstæðisbaráttu til alþingishátíðar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í ritgerðinni er fjallað um tveggja heima sýn fjögurra íslenskra ljóðskálda á tímabili sjálfstæðisbaráttu Íslendinga til Alþingishátíðar, þeirra Jóns Thoroddsens, Gríms Thomsens, Þorsteins Erlingssonar og Stephans G. Stephanssonar. Skáldin fjögur eru ólík um margt en þau eiga það sameiginlegt að dveljast langdvölum á erlendri grund, ýmist við nám eða með fastri búsetu. Fjarri heimaslóðum kynntust þau nýjum stefnum og straumum sem mótuðu hugmyndir þeirra til framtíðar og birtust í frumsömdum skáldskap þeirra. Slík sýn var þó alþjóðleg, enda hafði hún birst með ýmsum hætti í skrifum skálda og menningarfrömuða á Norðurlöndum, meginlandi Evrópu og í Vesturheimi. Skáldin fjögur höfðu þó ákveðna sérstöðu í þessu samhengi sem felst m.a. í því að þau ortu á íslensku og mörkuðu sér stað út frá íslenskri menningu og sögu.
    Jón Thoroddsen og Grímur Thomsen héldu ungir til náms í Danmörku og þjónuðu báðir Danakonungi, annars vegar í styrjöld og hins vegar sem embættismenn undir dönsku valdi. Þorsteinn Erlingsson stundaði einnig nám þar en lauk því ekki sökum heilsubrests og féleysis. Stephan G. Stephansson gekk ekki í skóla sökum fátæktar en flutti ásamt fjölskyldu sinni vestur um haf undan örbirgð hér heima. Þekking hans var ,,sjálftekin“, svo vitnað sé í hans eigin orð. Grímur hafði nokkra sérstöðu meðal skáldanna en honum vegnaði vel í námi og var lengi embættismaður Dana. Í söguljóðum hans kemur fram að hann þekkti vel til erlendra höfuðskálda og verka þeirra. Sama má raunar segja um Jón, sem hlaut skáldhróður í heimalandinu þegar í lifanda lífi, ekki síst vegna skáldsagna sinna en með ljóðum sínum varð hann líka þjóðkunnur á Íslandi.
    Þorsteinn og Stephan áttu sammerkt að boða jafnaðarstefnu í samfélaginu, enda var tveggja heima sýn sprottin af samfélagsbreytingum erlendis sem vöktu hugsjónir eins og jafnrétti og bræðralag en fólu í sér andúð á hernaði. Stórbrotin kvæði þeirra vitna um svipaða sýn á náttúruna en líka afstöðu gegn yfirvaldi sem var þeim þyrnir í augum. Þeir læra báðir að meta náttúruna á nýstárlegan hátt tveggja heima, að skoða hana í spegli í samanburði erlendis og í ljósi æskustöðvanna. Titill ritgerðarinnar, Tveggja heima sýn, vísar því í meginatriðum til þeirrar forsendu að skáldin fjögur fóru utan, flest til náms en eitt vegna fátæktar. Ekki sáu þeir fyrir að þeir yrðu skáld og að dvöl þeirra erlendis skapaði þeim sess heima á Íslandi sem sýna tveggja heima sýn manna sem þurftu að erfiða en uppskáru að lokum laun erfiðisins í ljóðum sem lifa sjálfstæðu lífi á meðal íslensku þjóðarinnar.

Samþykkt: 
  • 30.7.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6002


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA heildarritgerð (1).pdf720.7 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna