Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6032
Mikið hagræði fæst við að heimila svokallað aðilasamlag fyrir dómstólum. Með aðilasamlagi er átt við það þegar tveim eða fleiri er heimiluð aðild að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar. Samlagsaðild er ein tegund aðilasamlags og er heimild hennar að finna í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (hér eftir skammstöfuð eml.) en þar segir: Fleiri en einum er heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með sömu skilyrðum má sækja fleiri en einn í sama máli. Ella skal vísa máli frá dómi að kröfu varnaraðila að því er hann varðar. Eins og ákvæðið ber með sér þurfa kröfurnar að vera af sömu rót runnar til að hægt sé að neyta þessarar heimildar. Við mat á því hvenær kröfurnar uppfylla skilyrði samlagsaðildar hefur löggjafinn lögfest þrjú skilyrði til leiðbeiningar um það hvenær því er fullnægt og ef skilyrði samlagsaðildar eru til staðar verður hver samlagsaðili að hafa uppi sjálfstæða kröfu. Í þessari ritgerð verður fjallað um samlagsaðild skv. 1. mgr. 19. gr. eml. Ákvæðið hefur tekið miklum breytingum frá því sem áður var og hafa því fyrri fræðiskrif og dómsúrlausnir eftir breytingar á lögum um meðferð einkamála árið 1981 og 1991 takmarkað fordæmisgildi. Meginuppistaða ritgerðarinnar er dómarannsókn eftir gildistöku núgildandi laga en að öðru leyti er óhjákvæmilegt að styðjast að mestu leyti við skrif Markúsar Sigurbjörnssonar þar sem lítið hefur verið skrifað um ákvæðið eftir gildistöku laganna. Þó verður reynt að styðjast við aðrar heimildir þegar færi gefst. Byrjað verður á því að gera grein fyrir forsögu ákvæðisins, hvaða breytingum það hefur tekið og hvaða sjónarmið bjuggu þar að baki. Síðan verður fjallað um þau afbrigði aðilasamlags sem 19. gr. eml. heimilar og gerður greinarmunur á samaðild skv. 1. mgr. 18. gr. eml. og samlagsaðild skv. 1. mgr. 19. gr. eml. Að lokum verður fjallað um þau þrjú skilyrði sem ákvæðið setur fyrir samlagsaðild og það skilyrði ákvæðisins um að hver samlagsaðili þurfa að hafa uppi sjálfstæða dómkröfu. Í lokin verður síðan dregin ályktun af dómaframkvæmd og skoðað hvort þau sjónarmið sem bjuggu að baki breytingunum hafi vikið frá þröngri túlkun dómstóla á ákvæðinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA rigerð - samlagsaðild.pdf | 1.23 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |