Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6054
Í eftirfarandi ritgerð er fjallað um eftirlitshlutverk þinga Íslands, Bretlands og Bandaríkja Norður-Ameríku. Áhersla verður lögð á þátt þingskipaðra nefnda í þingeftirliti í löndunum þremur. Stuttlega verður fjallað um stöðu mála í Danmörku og Noregi. Umfjöllun um þingeftirlit í löndunum tveimur er þó ekki ítarleg enda er þingeftirlit í þeim ekki hluti af meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar.
Flest lýðræðisleg samfélög byggja stjórnskipun sína á kenningum um þrískiptingu ríkisvaldsins og svokallaðri þingræðisreglu. Þó ber að hafa í huga að hvert samfélag hefur aðlagað kenningarnar sínum eigin þörfum. Rétt er að taka fram að kenningarnar fela í sér að lagasetning sé mikilvægasta verkefni þingsins. Smám saman hefur eftirlit með framkvæmdarvaldshöfum þó orðið yfirgripsmeiri þáttur í störfum þingsins. Sérstaklega í ljósi þess að hlutverk framkvæmdarvaldsins hefur tekið stöðugum breytingum í því skyni að koma til móts við síbreytilegar þarfir samfélagsins. Með sama hætti hefur sú tilhneiging þinga að stýra eftirliti með framkvæmdarvaldshöfum og störfum þeirra í gegnum þingskipaðar nefndir farið vaxandi. Varpað verður ljósi á þessa þróun í ritgerðinni.
Ýmis vandamál hafa komið upp við framkvæmd eftirlitsins. Varpað verður ljósi á þessi vandamál og hvernig þau hafa verið leyst í hverju landi fyrir sig. Verkferlar nefnda eru einnig ólíkir í löndunum þremur. Í umfjölluninni verður gerður samanburður á því hvernig eftirlitið er framkvæmt, hvaða valdheimildir nefndir hafa í störfum sínum og hvaða áhrif skýrslur og álit nefnda hafa á ákvarðanir viðkomandi þinga.
Markmið þessa verkefnis er að bera saman framkvæmd eftirlitshlutverks þinganna og nefnda á vegum þeirra og að draga að lokum fram hugsanlegar leiðir til að bæta og auka skilvirkni eftirlitsins hér á landi
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Davor ML ritgerð loka.pdf | 907,86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |