is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6113

Titill: 
 • Tíðni þess að börn beri fleiri en eina hjúpgerð pneumókokka. Þróun á multiplex PCR aðferð til hjúpgreininga á pneumókokkum
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
 • Bakterían Streptococcus pneumoniae (pneumókokkar) hefur lengi verið þekkt sem orsakavaldur ýmissa sýkinga, bæði vægra t.d. eyrnabólgu og skútabólgu sem og lífshættulegra t.d. heilahimnubólgu og lungnabólgu. Fjölsykruhjúpur pneumókokka hefur lengi verið þekktur sem einn af helstu meinvirkniþáttum bakteríunnar, en helstu hlutverk hans eru að verja bakteríuna gegn áthúðun með sameindum ónæmiskerfisins og agnaáti átfrumna. Rúmlega 90 hjúpgerðir eru nú þekktar af bakteríunni og er hæfileiki þeirra til að valda ífarandi sýkingum misjafn.
  S. pneumoniae tekur sér bólfestu í nefkoki manna og veldur þar einkennalausri sýklun. Sýklun pneumókokka í nefkoki leiðir sjaldnast til sýkinga en er þó forsenda þess að þeir geti valdið sýkingum. Beratíðni fyrir pneumókokka er langhæst meðal ungra barna og mældist 72% meðal leikskólabarna á höfuðborgarsvæðinu vorið 2009. Tíðni þess að börn beri fleiri en eina hjúpgerð samtímis hefur mælst á bilinu 8-20%. Á markaði eru bóluefni sem veita vörn gegn nokkrum hjúpgerðum pneumókokka sem oftast ræktast frá ífarandi sýkingum. Meðan enn eru notuð bóluefni sem stuðla að ónæmi gegn ákveðnum hjúpgerðum pneumókokka er mikilvægt að fylgst sé með hvaða hjúpgerðir eru algengustu orsakavaldar sýkinga í hverju landi því dreifing algengustu hjúpgerða sem valda ífarandi sýkingum breytist yfir tímabil, misjafnt er hvaða hjúpgerðir valda oftast sýkingum hjá ólíkum aldurshópum fólks og misjafnt er á milli landssvæða í heiminum hvaða hjúpgerðir eru algengastar.
  Markmið þessarar rannsóknar eru að þróa multiplex PCR aðferð til greiningar og hjúpgreininga á pneumókokkum beint úr sýnum og að kanna tíðni þess að leikskólabörn á Íslandi beri fleiri en eina hjúpgerð pneumókokka í nefkoki.
  Sett var upp multiplex PCR aðferð sem greint getur 12 algengustu hjúpgerðir sem sýkla nefkok íslenskra leikskólabarna auk hjúpgerðar 4 sem oftast veldur ífarandi sýkingum hér á landi. Með aðferðinni voru greind 134 nefkokssýni sem tekin voru í berakönnun á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu vorið 2009. Hjúpgerðir höfðu áður verið greindar með ónæmisfræðilegum kekkjunarprófum, svokölluðu taflborðskekkjunarprófi og kóagglútínasjónprófi. Valin voru sýni sem innihéldu pneumókokka af hjúpgerðum sem aðferðin gat greint. DNA var einangrað beint af sýnapinnum. Sambærileg aðferð sem greint gat 8 hjúpgerðir pneumókokka hafði áður verið sett upp hér á landi og þá var DNA einangrað frá gróðri úr rækt. Fleiri en ein hjúpgerð pneumókokka greindist í 13,5% sýna í þeirri rannsókn.
  Fleiri en ein hjúpgerð pneumókokka greindist í 35% sýnanna, en aðeins í 10,4% þeirra þegar hefðbundinni hjúpgreiningu var beitt. Með multiplex PCR aðferðinni greindust allt upp í 4 hjúpgerðir pneumókokka í sama sýninu en með hefðbundinni hjúpgreiningu greindust aldrei fleiri en 2 hjúpgerðir.
  Einangrun DNA beint af sýnapinnum er líklegri til að stuðla að greiningu fleiri en einnar hjúpgerðar í sama sýninu þegar multiplex PCR aðferð er notuð til hjúpgreininga heldur en einangrun DNA frá gróðri á blóðagarskál. Multiplex PCR aðferð til hjúpgreininga virðist einnig henta mun betur til að greina fleiri en eina hjúpgerð pneumókokka í sama sýninu heldur en ónæmisfræðileg kekkjunarpróf sem hingað til hafa verið notuð til hjúpgreininga. Mun fleiri íslensk leikskólabörn eru sýkluð af fleiri en einni hjúpgerð pneumókokka heldur en hingað til hefur verið talið.

Samþykkt: 
 • 1.9.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/6113


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Diplómaritgerð Pálína.pdf937.38 kBLokaðurHeildartextiPDF