is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6123

Titill: 
  • Hjúkrun sjúklinga með langvinna lungnateppu. Innleiðing líknarmeðferðar á sjúkradeild
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Nýlega útgefnar klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð á Landspítalanum gefa tilefni til að skoða hvernig hægt sé að bæta og styrkja þjónustu við sjúklinga með langvinna lungnateppu á sjúkradeild. Markmiðið er að heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum með langvinna lungnateppu á sjúkradeild taki mið af hugmyndafræði líknarmeðferðar en meginmarkmið hennar er að bæta lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra andspænis lífsógnandi sjúkdómi. Langvinn lungnateppa er langvinnur sjúkdómur og getur einkennabyrði sjúkdómsins verið mikil fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans og þá sérstaklega er varðar andþyngsli sem er aðaleinkenni sjúkdómsins.
    Í verkefninu er fjallað um lykilþætti sem hafa áhrif á innleiðingu líknarmeðferðar með hliðsjón af óvissulíkani Roland van Linge. Þar er gert ráð fyrir að árangursrík innleiðing þurfi samþýðanleika milli nýjungar (líknarmeðferðar lungnasjúklinga) og umhverfis eða núverandi starfshátta. Í fræðilegu yfirliti yfir sjúkdóminn langvinna lungnateppu og lykilatriði er lúta að sérstöðu lungnasjúklinga m.t.t. líknarmeðferðar kemur fram að sjúkdómurinn langvinn lungnateppa er flókinn sjúkdómur sem hefur óvissar horfur. Mögulega þarf að endurskoða klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð fyrir þennan sjúklingahóp með hliðsjón af sérstöðu hans. Tekið var rýnihópsviðtal við hjúkrunarfræðinga (N=8) á lungnadeild Landspítalans sem þjónar hlutverki greiningarviðtals í innleiðingunni. Tilgangur viðtalsins var að meta hindranir og greina árangursríkar leiðir fyrir innleiðinguna. Þemagreining niðurstaðna sýnir að meginhindranir við innleiðingu líknarmeðferðar eru hugtakaruglingur varðandi líknar- og lífslokameðferð, að hjúkrunarfræðingar eru í baráttu eða ágreiningi við aðrar heilbrigðisstéttir m.a. lækna um að vinna eftir hugmyndafræði líknarmeðferðar, auk þess sem óvissa um framgang sjúkdóms getur hindrað ákvarðanatöku um meðferðina. Árangursríkar leiðir til innleiðingar vörðuðu mikilvægi þess að vera samstíga varðandi framkvæmd líknarmeðferðar og að þverfaglegir vinnufundir væru lausn til samræmingar.
    Þær ályktanir má draga að enn sé langt í land með að unnið verði eftir klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð fyrir lungnasjúklinga. Til þess að geta veitt sjúklingum með langvinna lungnateppu líknarmeðferð þarf sérhæfingu þar sem um flókinn sjúkdóm og sjúkdómsferli er að ræða. Við innleiðingu á klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð þarf að byggja á þekkingu; hún þarfnast tíma og fjármuna og mögulega þarf að aðlaga leiðbeiningarnar að sértækum þörfum sjúklinga með langvinna lungnateppu.

Samþykkt: 
  • 6.9.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6123


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaeintak_gudrunj.pdf1.42 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna