Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6135
Í ritgerð þessari er fjallað um rétt aðila til ívilnunar samkvæmt tvísköttunarsamningum á grundvelli 1. gr. samningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), með hliðsjón af öðrum samningsfyrirmyndum og gildandi tvísköttunarsamningum á Íslandi. Í ákvæðinu er gildissvið tvísköttunarsamninga skilgreint á þann veg að samningurinn taki til aðila með heimilisfesti í öðru eða báðum samningsríkjum. Er með því vísað til hugtaka sem skilgreind eru í 3. og 4. gr. samningsfyrirmyndarinnar. Í a-lið 1. mgr. 3. gr. er skilgreining á hugtakinu aðili og í 1. mgr. 4. gr. er skilgreining á hugtakinu aðili með heimilisfesti í samningsríki. Þeir sem vilja njóta ívilnunar samkvæmt tvísköttunarsamningi þurfa að uppfylla þau skilyrði sem koma fram í ákvæðunum, og ber að túlka ákvæði 1. gr. með hliðsjón af 3. og 4. gr. samningsfyrirmyndarinnar.
Við beitingu 1. gr. samningsfyrirmyndarinnar hafa komið upp sérstök ágreiningsefni vegna mismunandi reglna í landslögum ríkja, sérstaklega varðandi meðhöndlun sameignarfélaga. Byggja ríki á ákvæðum landsréttar þegar þau ákvarða hvort sameignarfélög teljist sjálfstæðir skattaðilar eða ekki. Þegar sameignarfélag telst ósjálfstæður skattaðili er horft framhjá félaginu og félagsmenn þess skattlagðir í samræmi við hlut þeirra félaginu, en þetta getur einnig átt við um önnur félagaform. Á Íslandi eru sameignarfélög, samlagsfélög og samlagshlutafélög ýmist skattlögð sem sjálfstæðir eða ósjálfstæðir skattaðilar á grundvelli skilyrða sem fram koma í lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 og er því skoðuð staða þessara félagaforma í skilningi samningsfyrirmyndar OECD og íslenskra tvísköttunarsamninga. Einnig er sérstaklega tekin til skoðunar staða lífeyrissjóða hér á landi sem eru undanþegnir skattskyldu á grundvelli 6. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og hvaða afleiðingar það getur haft við beitingu tvísköttunarsamninga. Réttur sameignarfélaga er síðan skoðaður út frá mismunandi meðhöndlun þeirra í samningsríkjum, hvort sem það er í upprunaríki eða heimilisfestarríki. Að auki er skoðuð mismunandi meðhöndlun greiðslna sem fara milli sameignarfélaga og félagsmanna. Að lokum er fjallað um skort á samræmdri beitingu ákvæða tvísköttunarsamninga að því er varðar sameignarfélög og óeðlilega notkun á rétti tvísköttunarsamninga yfirleitt.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð.pdf | 738.93 kB | Lokaður | Heildartexti | ||
formáli.pdf | 65.9 kB | Lokaður | Formáli | ||
forsida.pdf | 48.7 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna |