is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6142

Titill: 
  • Opinbert eftirlit með starfsemi lánastofnana yfir landamæri innan ESB/EES
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Á örskömmum tíma varð fjármálaþjónusta ein af aðalatvinnugreinum á Íslandi. Ástæðu breytinganna má að miklu leyti rekja til erlendrar starfsemi íslenskra lánastofnana sem á skömmum tíma færðust úr því að sinna aðeins starfsemi á innlendum markaði yfir í að veita alþjóðlega fjármálaþjónustu í gegnum útibú eða dótturfélög. Þessar breytingar má m.a. rekja til aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en með honum varð Ísland aðili að innri markaði Evrópu. Óhætt er að segja að íslenskar lánastofnanir hafi nýtt heimildir sínar samkvæmt samningnum eins og kostur var þar sem starfsemi þeirra jókst gríðarlega á mjög skömmum tíma. Fram yfir 2000 fór lítið fyrir hinum erlenda þætti í starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna en á árunum þar á eftir fór hún hratt vaxandi. Snöggur endir varð hins vegar á erlendri starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna í október 2008 þegar þrjár af stærstu lánastofnunum landsins voru teknar yfir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli svonefndra neyðarlaga. Í framhaldi af falli bankanna hafa vaknað upp spurningar um hvernig var staðið að eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækjanna og hvort þar hafi skort á lagaheimildir eða framkvæmdin hafi ekki verið fullnægjandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er varpað ljósi á eftirlit með erlendri starfsemi stóru íslensku bankanna og margvísleg dæmi tekin um það sem betur mátti fara í starfsemi eftirlitsaðila sem fóru með eftirlit með starfsemi yfir landamæri.
    Í ritgerðinni er fjallað um opinbert eftirlit með starfsemi lánastofnana yfir landamæri innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Umfjöllun ritgerðarinnar hefst á því að fjallað verður um hvers vegna haldið er uppi opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi og bent á að vegna sérstaks eðlis lánastofnana og þýðingar þeirra í hagkerfinu hafa þeir sem fara með löggjafar- og reglusetningarvald talið nauðsynlegt að lögbinda starfsemina og koma á sérstökum eftirlitsaðilum með henni. Að því loknu verður farið yfir hina svonefndu útrás íslensku fjármálafyrirtækjanna og vísað til tölulegra upplýsinga til að sýna fram á vöxt og umfang starfseminnar þá bæði í alþjóðlegu samhengi og innlendu. Fjallað verður um grundvallarreglur Rómarsáttmálans og EES-samningsins stofnsetningarrétt, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga ásamt því að fjallað verður um þróun afleidds réttar um fjármálamarkaði innan Evrópusambandsins sem stefnir að samræmdu regluverki aðildarríkjanna á sviði fjármálamarkaða. Áður en lánastofnun getur á grundvelli gagnkvæmrar viðurkenningar á starfsleyfi hafið starfsemi í gistiríki ber henni að tilkynna heimaríki um fyrirhugaða starfsemi en farið verður yfir tilkynningarferlið. Fjallað verður um eftirlit heimaríkis en samkvæmt meginreglunni um opinbert eftirlit með starfsemi lánastofnanna yfir landamæri innan ESB/EES ber heimaríki meginábyrgð á eftirliti með starfseminni. Í því sambandi verður fjallað um heimildir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til að hafa eftirlit með erlendri starfsemi íslenskra lánastofnana. Í næsta kafla verður svo fjallað um eftirlits- og valdheimildir gistiríkis en það skref hefur ekki hefur verið stigið til fulls að fela heimaríki alfarið eftirlit með starfsemi lánastofnana yfir landamæri innan ESB/EES. Til að varpa ljósi á framkvæmd eftirlits- og valdheimilda heimaríkis og gistiríkis verða meðal annars dæmi tekin úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Að lokinni umfjöllun um heimaríki og gistiríki verður fjallað um samstarf þessara aðila þegar kemur að eftirliti með lánastofnunum áður en niðurstöður ritgerðarinnar verða dregnar saman í sér kafla.

Samþykkt: 
  • 7.9.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6142


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Opinbert eftirlit með starfsemi lánastofnana yfir landamæri innan ESBEES.pdf546.55 kBLokaðurHeildartextiPDF