Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6153
Í þessari ritgerð verður fjallað um forsetningarstrand bæði frá almennum sjónarhóli og einnig með sérstöku tilliti til íslensku.
Rætt verður um forsetningarstrand almennt en tungumál sem leyfa forsetningarstrand eiga ýmsa þætti sameiginlega sem hafa verið settir fram í fimm alhæfingum (Abels 2003:230). Einnig verður fjallað sérstaklega um íslensku og hún borin saman við ensku. Dómarnir fyrir íslensku eru mínir eigin en vafaatriði voru hins vegar einnig borin undir aðra málhafa. Dómarnir fyrir ensku eru fyrst og fremst fengnir úr þeim ritum sem vitnað er í. Mörg dæmanna voru hins vegar einnig borin undir málhafa og verður það tekið fram. Svo virðist sem munur milli málanna sé tiltölulega lítill og eru mörg tilbrigði þegar kemur að hömlum á forsetningarstrandi sem mörg hver eiga sér ekki augljósar setningafræðilegar skýringar. Klár setningafræðilegur munur milli íslensku og ensku er fyrst og fremst að íslenska leyfir ekki forsetningaþolmynd, en það gerir enska. Einnig leyfir enska forsetningarstrand í brottfallsspurningum en það gerir íslenska ekki. Þá verður forsetningarstrand skoðað í sögulegu ljósi.
Einnig verða skoðaðar nokkrar kenningar um forsetningarstrand almennt og kostir þeirra og gallar ræddir. Fyrst verður rætt um endurtúlkunarkenningu Hornberg og Weinstein (1981), þ.e. að forsetningarstrand eigi sér stað vegna þess að forsetning og sögn hafi verið endurtúlkuð sem ein sögn. Því næst verður rætt um kenningu Takami (1992) sem gengur út frá virknimálfræði þar sem hömlur á forsetningarstrandi eru tengdar við mikilvægi upplýsinga. Loks verður rætt um kenningu Abels (2003) sem útskýrir forsetningastrand út frá fasakenningunni og setur hann fram tvær færibreytur til að útskýra og miðar að því að gera grein fyrir alhæfingunum fimm.
Að lokum verður reynt að gera grein fyrir forsetningarstrandi út frá hringvirkri línuréttingu (Fox & Pesetsky 2003, 2004). Sú kenning gengur út á að afstaða liða gagnvart hverjum öðrum er ákvörðuð á ákveðnum punktum afleiðslunnar. Reynt verður að gera grein fyrir fjórum af fimm alhæfingunum en jafnframt reynt að skýra fleiri tengd fyrirbæri, þ.e. rottun, tvöföldun og andlagsstrand.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA_F-strand_GRH.pdf | 560.2 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |