Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/6157
Sandárbókin (2007) eftir Gyrði Elíasson (f. 1961) ber undirtitilinn Pastoralsónata, þannig að sjálf titilsíðan kallast á við langa hefð frásagna af flótta frá borg til náttúru. Það kemur svo snemma í ljós að söguefnið er í þeim anda. Sagan er fyrstu persónu frásögn fráskilins myndlistarmanns sem flúið hefur vandamál sín í borginni og er fluttur í hjólhýsahverfi í skógi við Sandá í Þjórsárdal.
Í ritgerðinni sem hér birtist er Sandárbókin lesin frá sjónarhorni vistrýni. Þar er samband manns og náttúru skoðað. Vistrýni er nýleg, þverfagleg fræðigrein sem fæst við tengsl skáldskapar og náttúru; sýnir hvernig skáldskapur, og raunar allur menningar„texti“, vitnar um samspil hins manngerða og náttúrunnar og tekur stöðu með náttúrunni gegn þeim öflum sem ógna henni. Um leið og sótt er til vistrýninnar er fjallað nánar um uppruna hennar og fjórar helstu undirgreinar hennar.
Sandárbókin er einnig skoðuð í ljósi langrar hefðar hjarðskáldskapar og vegið og metið hvað hún kunni að eiga sameiginlegt með svokölluðum „and-“ og „síð- hjarðskáldskap“, en þau hugtök eru fengin frá Terry Gifford. Saga hjarðskáldskapar er þá rakin stuttlega og hugtakið „hjarðskáldskapur“ skilgreint.
Tengsl Sandárbókarinnar við Walden (1854) eftir ameríska rithöfundinn Henry David Thoreau (1817-1862) eru ennfremur rakin með völdum dæmum og sérstakri áherslu á innrás samfélagsins í heim sveitasælunnar áður en lokaniðurstöður eru dregnar.
Komist er að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að skilgreina Sandárbókina sem and-hjarðskáldskap, en hún eigi hins vegar töluvert sameiginlegt með síð-hjarðskáldskap. Þannig er sagan tilraun höfundar til að blanda sér í umræðu um náttúruvernd og reyna að hafa áhrif á viðhorf lesenda til náttúrunnar og verndunar hennar.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA-Ritgerð - Dagur Hjartarson.pdf | 303.67 kB | Locked | Heildartexti |