is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6166

Titill: 
  • Matthea Jónsdóttir listmálari
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Lokaverkefnið í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands sem hér fer á eftir er listaverkabók um Mattheu Jónsdóttur myndlistarkonu og greinargerð um vinnsluferli bókarinnar. Matthea var afkastamikil listakona sem á fjörutíu ára ferli hélt sextán einkasýningar og tók þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Nokkrar viðurkenningar hlaut hún einnig fyrir verk sín, aðallega í Frakklandi og Belgíu. Hún stundaði myndlistarnám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík á árunum 1954-56 og við Myndlistaskólann í Reykjavík 1960-61 og starfaði allan sinn feril hér á landi. Hún var alla tíð heilluð af kúbískum formum og frá ferli hennar eru stílfærð kúbísk verk mest áberandi. Inn í kúbísku verkin blandaði hún yfirleitt öðrum formum eða stílum, helst hlutbundnum natúralískum formum. Hún vann þó ekki eingöngu verk í þeim stíl, hún átti til að hvíla sig á kúbísku formunum með því að gera tilraunir með allt annars konar verk. Um 1970 gerði hún abstraktverk þar sem hún notaði hraunmola í myndverk sín, snemma á níunda áratug tuttugustu aldar málaði hún draumkenndar landslagsstemningar sem jafnvel má telja undir áhrifum frá súrrealisma Dalís og rómantískar skógarmyndir urðu til sumarið 1985. Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar byrjaði hún að nota vatnsliti og næstu árin vann hún síðan vatnslitamyndir samfara olíumálverkum. Þegar leið á feril hennar tóku verk hennar miklum breytingum og síðustu árin þróuðust þau yfir í geómetrísk abstraktmálverk, sem voru þó áfram undir áhrifum kúbískrar formgerðar.
    Tólf ár eru liðin frá hennar síðustu einkasýningu sem haldin var í Gerðasafni í Kópavogi og hafa verk hennar að vissu leyti hafa fallið í gleymsku á síðastliðnum árum, sem er kannski ekki óeðlilegt. Erfitt er að finna upplýsingar um hana eða verk hennar, aðeins eitt listasafn á verk eftir hana (Listasafn Fjallabyggðar) og ekki er að finna upplýsingar um hana á upplýsingavef um íslenska myndlistarmenn (www.hmm.is). Tilgangur verkefnisins er því fyrst og fremst að bæta úr þessum skorti á upplýsingum og vekja athygli á listakonunni og verkum hennar á ný. Einnig er markmiðið að gera upplýsingar um Mattheu aðgengilegar þeim sem áhuga hafa á að kynna sér verk hennar og feril sem hluta af íslenskri myndlist á tuttugustu öld.

Samþykkt: 
  • 9.9.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6166


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Greinargerd_ArnaBjork.pdf7.14 MBOpinnGreinargerðPDFSkoða/Opna
Matthea bok.pdf51.41 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna