Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6173
Sverris saga er ein fyrsta samtíma ævisagan á norrænni tungu, hún er skrifuð á ofanverðri 12. öld eða í byrjun 13. aldar. Hún fjallar um Sverri Noregskonung, hvernig hann braust til valda og hélt völdum allt til að hann lést á sóttarsæng 1202. Að loknum inngangi er hér gerð grein fyrir aðkomu Karls Jónssonar ábóta á Þingeyrum að ritinu, en hann er af mörgum talinn höfundur sögunnar. Leitast er við að skýra hvers vegna hann frekar en aðrir hafi skrifað söguna og hvað það var sem gerði hann hæfari til þess en aðra. Lögð er fram tilgáta um að Sverrir konungur og Karl hafi skrifað saman byrjun sögunnar og þar megi sjá helstu áhrif Sverris. Sýnt er fram á að Karl hafði fleiri heimildarmenn en Sverri einan og höfundur hafi sýnt mikið sjálfstæði við verkið, þó áhrif Sverris séu greinileg.
Sverri konungi er lýst og farið yfir áhersluatriði í lífi hans, fjallað um óvissu með faðerni og hvernig draumar hans leiða hann áfram og eru honum staðfesting á stöðu sinni í samfélaginu. Draumar hans leiða hann í hásæti Noregskonungs og hann verður þríeinn konungur kirkju, þings og þjóðar. Með ræðum sínum og málsnilld fær hann liðsmenn sína til að sýna mikið baráttuþrek og þrautseigju til að ná settu marki.
Höfundur segir söguna í 3. persónu en bætir við miklum fjölda annarra radda, með því að segja söguna eftir fjórum leiðum, það er með beinni frásögn, draumum, vísum og ræðum. Það er og verkefni ritgerðarinnar að skoða með hvaða hætti vísurnar eru notaðar í sögunni og hvaða tilgangi þær þjóni fyrir framvindu og áreiðanleik sögunnar. Meginverkefnið er hins vegar að skoða ræður Sverris konungs en þær eru fjölmargar, valdar eru 10 helstu ræðurnar. Bygging þeirra er skilgreind og hvernig hver ræða skiptist í ræðuhluta og síðan er stíll ræðu og stílbrögð skoðuð. Í lokin er ræðan greind efnislega og hvernig nota má fjórskipt formgerðarlíkan sem Ármann Jakobsson setti fram í Skírni 2005 til greiningar á Sverris sögu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sverris saga ræður Sverris_9_september.pdf | 963.4 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |