is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6183

Titill: 
  • Svigrúm íslenskra grunnskólastjóra til forystu og stjórnunar. „Spennusviðið þar sem kraftar eftirlits og frelsis mætast“
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Þessari lokaritgerð til meistaranáms í opinberri stjórnsýslu hefur verið valið heitið "Svigrúm íslenskra grunnskólastjóra til forystu og stjórnunar". Ritgerðin innheldur annars vegar fræðilega umfjöllun, þar sem valdir þættir úr opinberri stjórnsýslu og rannsóknum á stöðu og störfum skólastjórnenda og skólaþróun ráða för. Hins vegar eru settar fram niðurstöður eigindlegrar rannsóknar, en tekin voru viðtöl við 11 starfandi grunnskólastjóra.
    Niðurstöður sýna að viðmælendur telja formlega ramma um skólastarf almennt styðjandi fremur en heftandi og finna sig hafa tækifæri til að hafa áhrif á þá þar sem tilefni er til. Þeir telja foreldra og nærsamfélag vera skólanum hliðhollt og styðjandi og leggja áherslu á ábyrgð skólans gagnvart samstarfi heimila og skóla. Viðmælendur sammælast hins vegar með skýrum hætti um að það sem hefti svigrúm þeirra til forystu og stjórnunar séu kjarasamningar grunnskólakennara, einkum vinnutímarammi samningsins. Þeir telja allir sem einn, að vinnutímaskilgreiningar grunnskólakennara hefti tækifæri til skólaþróunar og óska eftir auknum sveigjanleika sem kallar á bundnari vinnutíma kennara á vinnustað til að skapa skólaþróun betri forsendur til framtíðar. Viðmælendur taka þó fram að það er fremur fámennur en áhrifamikill hluti kennarastéttarinnar sem heldur fast í smáatriði kjarasamningsins og gerir sér far um að minna aðra á þau atriði.
    Önnur meginniðurstaða snýr að stöðu grunnskólastjóra í stjórnsýslunni. Grunnskólastjórar líta á sig sem opinbera stjórnendur með ríkar forystu- og stjórnunarskyldur. Hins vegar virðist sem stjórnsýslan veiti þeim ekki alltaf það bakland sem þeir hafa þörf fyrir. Hluti viðmælenda finnur fyrir einsemd, finnur sig skorta faglegan stuðning, aðhald og hvatningu. Störf þeirra eru krefjandi og þeim fylgja álag og togstreita, þegar samþætta þarf óskir og þarfir ólíkra hagsmunahópa. Að eins miklu leyti og marka má niðurstöður þessarar takmörkuðu rannsóknar virðist mega segja, að grunnskólastjórar hafi tekið sér stöðu í stjórnsýslu sveitarfélaga, en þeir sjá þess ekki allir merki að sveitarfélögin hafi fundið þeim raunverulega stöðu í stjórnsýslunni. Þessi staða skapar aukna hættu á faglegri einsemd og kulnun og við því þarf að bregðast.

Samþykkt: 
  • 10.9.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6183


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HG_lokautgafa.pdf843.83 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna