Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6310
Þessi ritgerð er unnin með því hugafari að skoða hvort konur í leit að ástarsambandi geti stuðst við hugmynda- og aðferðafræði markaðsfræðinnar um markaðssetningu í þeim tilgangi að stofna til ástarsambands. Lagt var upp með þeim hætti að konunni væri hægt að líkja við vöru eða framleiðslueiningu.
Eigindleg rannsókn var gerð með þriggja einhleypra kvenna í námi við Háskóla Íslands. Þátttökuathugun og opin viðtöl voru notuð við gagnasöfnunina. Kannað var hvort konurnar nýttu sér miðaða markaðssetningu á tveimur vettvöngum, á skemmtanalífinu og í daglegu lífi, til að koma „vöruframboði“ sínu á framfæri. Einnig var skoðað hvort að þær aðgreindu sig með samvali söluráðanna sem snýst um P-in fjögur sem eru vara, verð, vettvangur og vegsauki. Ákjósanlegt þótti að velja konur þar sem rannsóknin beinist að markaðssetningu kvenna og leit þeirra að maka. Þátttakendurnir í þessari rannsókn voru valdir með hentugleika úrtaki, það er þær eru nálægar rannsakandanum en eiga það sameiginlegt að vera allar nemendur í Háskóla Íslands. Kenningarnar um miðaða markaðssetningu (STP) og samval söluráða (e. marketing mix) voru notaðar í ritgerðinni til að finna út hvernig konurnar komu vöru sinni á framfæri með sem skilvirkustum hætti.
Niðurstöður leiddu í ljós að konurnar nýttu sér miðaða markaðssetningu og aðgreindu sig með söluráðum á báðum vettvöngum. Konurnar sýndu fram á markaðshlutun en þær skiptu markaðinum með því að styðjast við landfræðilegar og lýðfræðilegar breytur. Þær vildu karlmenn á svipuðum aldri og með góða menntun. Allar konurnar notuðu samval söluráða til að aðgreina sig. Verð var misjafnt eftir aðstæðum, hvort það var í daglegu lífi eða á skemmtanalífinu. Dreifileiðirnar voru mismunandi þegar kom að skemmtanalífinu en aðeins einn var sameiginlegur sem er Hressingarskálinn. Í daglegu lífi var fylgst með konunum í Háskóli Íslands. Konurnar treystu allar á persónulega sölumennsku, söluhvata og stórt tenglsanet til að auka vegsauka sinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Forsíða.pdf | 20.66 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Ritgerð.pdf | 508.58 kB | Lokaður | Meginmál |