Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6361
Streptococcus pneumoniae er mikilvægur sýkingavaldur í mönnum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin áætlar að sýkingar af völdum bakteríunnar kosti 1,6 milljón manna lífið árlega og er stærsti hlutinn ung börn í þróunarlöndunum. Nýlega hefur komið í ljós að S. pneumoniae getur borið festiþræði (pili). Kóðað er fyrir tveimur gerðum af festiþráðum á genaeyju I og genaeyju II. Sýnt hefur verið fram á að festiþræðir auki meinvirkni bakteríunnar. Aukin tíðni sýklalyfjaónæmra stofna ásamt aukinni tíðni hjúpgerða sem núverandi bóluefni innihalda ekki hefur leitt til þess að verið er að skoða nýjar leiðir í þróun bóluefna. Ein hugsanleg leið er að þróa bóluefni úr próteinmótefnavökum bakteríunnar sem yrðu þá óháð hjúpgerðum og hafa byggingareiningar festiþráða verið skoðaðar í því samhengi. Áður en sá möguleiki verður raunhæfur þarf að skoða tíðni festiþráða hjá bakteríunni. Markmið þessarar rannsóknar var að þróa PCR aðferðir til að greina festiþræði bakteríunnar og meta tíðni festiþráða af báðum gerðum sem og að undirflokka festiþræði af gerð I.
Stofnar úr heilbrigðum leikskólabörnum á höfuðborgarsvæðinu sem safnað var vorið 2009 (n=60) ásamt völdum klónum úr ífarandi sýkingum (n=38) voru skoðaðir með PCR aðferðum. Aðferðirnar byggja á notkun sértækra prímerapara fyrir markraðir innan genaeyjanna og beggja megin við þær. Við leit að genaeyju I voru notuð prímerapör gegn þremur genum innan eyjunnar, einu geni utan hennar og gegn markröðum beggja vegna hennar. Við undirflokkun festiþráða voru notuð prímerapör gegn einu geni genaeyjunnar. Við leit að genaeyju II voru notuð fjögur prímerapör, eitt gegn markröðum beggja vegna eyjunnar, tvö þar sem annar prímerinn binst innan genaeyjunnar og hinn utan hennar og að lokum eitt prímerapar gegn markröðum innan eyjunnar.
Tíðni festiþráða af gerð I reyndist vera 31,6% í sýnunum í heild, 28,3% í berasýnum og 36,8% í sýnum úr ífarandi sýkingum. Festiþræðir af flokki I voru algengastir í báðum sýnaflokkum. Festiþræðir af gerð I fundust hjá hjúpgerðum 4, 6A, 6B, 9V, 15 og 19F. Tíðni festiþráða af gerð II reyndist vera 6,3% í sýnunum í heild, 7,7% í berasýnum og 4,0% í sýnum úr ífarandi sýkingum. Festiþræðir af gerð II fundust í hjúpgerðum 7F og 19F.
Þetta eru fyrstu rannsóknir sem gerðar eru á því hvort pneumókokkar frá sjúklingum og berum hér á landi beri festiþræði og ljóst er að frekari rannsókna er þörf til að hægt sé að segja mikið um þýðingu niðurstaðanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Festiþræðir+pneumókokka-Skemman.pdf | 1,48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |