is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6586

Titill: 
 • Vinasamband eða ástarsamband? : skilningur og sýn fólks með þroskahömlun
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Verkefni þetta fjallar um hvernig fólk með þroskahömlun upplifir og skilur muninn á vinasambandi og ástarsambandi. Hvað þýðir það að vera í vinasambandi og hvað þýðir að vera í ástarsambandi. Markmið verkefnisins var að skoða hvaða skilning fólk með þroskahömlun leggur í þessi ólíku sambönd. Hvernig skilur fólk þessi hugtök og hvernig samskipti telur það eðlilegt að eigi sér stað í þessum samböndum.
  Stærsti hluti verksins byggir á fræðilegum heimildum og rannsóknum á sambærilegu sviði. Til að öðlast frekari skilning á sýn fólks með þroskahömlun voru tekin fjögur viðtöl. Viðmælendur voru fjórir, tvær konur og tveir karlmenn á aldrinum 42 og 47 ára. Við undirbúning og framkvæmd viðtalana var stuðst við hefðir eigindlegrar aðferðafræði, sama átti við um greiningu og úrvinnslu gagna. Þar sem viðtölin voru aðeins fjögur gefa þau eingöngu vísbendingu um skilning þessara þátttakenda á fyrrgreindum hugtökum en hafa ekki alhæfingargildi.
  Eins og fram kemur í fræðilega hlutanum þá hafa viðhorf gagnvart fólki með þroskahömlun breyst í gegnum árin samhliða breyttri hugmyndafræði. Um miðja síðustu öld þótti eðlilegt að fólk með þroskahömlun væri vistað inn á sólarhringsstofnunum og væri aðgreint frá samfélaginu. Með hugmyndafræði um eðlilegt líf og samfélagsþátttöku urðu miklar breytingar á högum þessa hóps og nú er lögð áhersla á að fólk með þroskahömlun lifi eðlilegu lífi í samfélaginu og njóti sömu réttinda og aðrir. Þrátt fyrir að fólk með þroskahömlun flytti út af stofnunum og út í samfélagið virðist sem ekki hafi verið hugað að öllum þeim þáttum sem því fylgdu. Sem dæmi um það má nefna að fræðsla um kynvitund, kynlíf og ólík sambönd fólks hefur verið af skornum skammti og hefur það leitt til þess að margir hafa takmarkaða þekkingu á þessum þáttum.
  Niðurstöður úr viðtölunum bentu samt sem áður til þess að fólk með þroskahömlun geri ágætan greinarmun á því hver munurinn er á vinasambandi og ástarsambandi. Flestir litu svo á að í vinasambandi deili fólk áhugamálum og geri eitthvað saman eins og að fara í bíó og út að borða. Það kom einnig fram að vinum þykir vænt um hvorn annan og eiga að geta treyst hvor öðrum. Viðmælendur litu á ástarsamband sem samband á milli tveggja einstaklinga sem væru hrifnir hver af öðrum eða þætti vænt um hvorn annan. Þeir töldu að kynlíf og ást væri hluti af ástarsambandi og það væri mikilvægt að geta treyst hinum aðilanum í sambandinu.

Samþykkt: 
 • 15.10.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/6586


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Vinasamband eða ástarsamband PDF.pdf538.5 kBOpinnmeginmálPDFSkoða/Opna