Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6673
Í fræðilegum hlutum ritgerðarinnar er rætt um hugtakið sjúkdómsvæðingu, einkum með tilliti til aðkomu skóla og kennara en einnig almennt í tengslum við þá miklu ummyndun sem orðið hefur á tengslum einstaklingsins við samfélagið á síðustu áratugum, þ.e. einstaklingsvæðingu og nútímavæðingu.
Tilgangur rannsóknarhluta ritgerðarinnar var að kanna hver þáttur kennarans er í því ferli þegar ákvörðun er tekin um að senda barn til greiningar. Þetta var skoðað í ljósi niðurstaðna erlendra rannsókna um að viðhorf og hlutdeild kennara geti skipt sköpum varðandi það hvort sjúkdómsvæðing sé innan hóflegra marka eða ekki. Úrtakið voru 60 umsjónarkennarar á miðstigi grunnskóla. Spurningalistar voru sendir út í skóla, 5 skóla á höfuðborgarsvæðinu og 7 á landsbyggðinni, samtals voru 30 kennarar á hvoru svæði fyrir sig. Svarhlutfallið skiptist þannig niður að landsbyggðin svaraði 20/30 eða 66,7% og höfuðborgarsvæðið 22/30 eða 73,3%. Sú nálgun sem hér er valin til rannsóknar á hlutverki og aðkomu kennara í greiningarferli grunnskólanema er megindleg, lýsandi rannsóknaraðferð.
Einnig gerði ég samanburð á niðurstöðum rannsóknar minnar og tveimur sambærilegum erlendum rannsóknum, bandarískri könnun þeirra Sax & Kautz (2003) og bresk/kanadískri samanburðarrannsókn Malacrida (2004). Í ljós kom við samanburð á íslensku könnuninni og erlendu könnununum tveimur að íslenskir kennarar taka meiri þátt í greiningarferlinu en kollegar þeirra erlendis. Greiningarteymin hér eru þverfaglegur hópur sérfræðinga þar sem kennarar og heilbrigðisstéttir vinna saman að lausn. Erlendu rannsóknirnar staðfestu að þrýstingur kennara og foreldra hefur leitt til þess að börn eru stundum greind með ADHD sem ekki eru þannig, kannski einungis haldin kvíðaröskun eða með lága greindarvísitölu. Spyrja má hvort það eigi einnig við hér á landi enda kemur fram í könnun minni að betra aðgengi að sérfræðingum leiði til fleiri greininga og að foreldrar beinlínis þrýsti á að fá greiningu til þess að tryggja að barnið fái betri þjónustu í skólakerfinu. Ætla má að íslenskir foreldrar séu öflugur þrýstihópur sem sækist eftir greiningu barna sinna til að tryggja barninu stuðning í námi. Samband foreldra og kennara hér á landi virðist vera með meiri gagnkvæmum skilningi en erlendis. Skýringin er kannski sú að íslenskir kennarar eru tengdari greiningarferlinu en kollegar þeirra erlendis. Þrýstingur á skólakerfið er mikill og hætta á ofgreiningu er fyrir hendi og þar með óhóflegri sjúkdómsvæðingu. Þetta kemur heim og saman við þær erlendu kannanir sem ég hef borið mig saman við og sýnir að líkur eru á að óhófleg sjúkdómsvæðing sé til staðar í íslenska skólakerfinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ThorunnJonatansdottirLOKASKJAL 3-18 mai.pdf | 696.6 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |