is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6950

Titill: 
 • Skrift 12 ára barna
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Skrift er heiti á lokaverkefni undirritaðrar til B.Ed prófs í grunnskólakennarafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Viðfangsefnið er skrift 12 ára barna.
  Fyrir tuttugu og sex árum síðan og eftir gaumgæfilega athugun og rannsóknir var tekin upp ný skrift hér á landi, svokölluð Ítalíuskrift. Nágrannaþjóðir okkar voru þá búnar að taka upp þessa skrift. Ákveðið var að kalla skriftina hér á landi Grunnskrift, sumir kalla hana að vísu Tengiskrift og ekki virðast allir vita hvað skriftargerðin heitir. Sitt sýnist hverjum um fegurð þessarar skriftar og útkomu, sumir tala um barnalega skrift, að allir skrifi eins og að skriftin sé ópersónuleg og ekki falleg. Getur þetta verið rétt? Þar sem skriftarkennsla fær stöðugt minna vægi í skólakerfinu er forvitnilegt að skoða skrift barna sem lokið hafa sínu formlega skriftarnámi og kanna einnig viðhorf þeirra og kennara þeirra til skriftarinnar. Hvernig skrifa börn í dag? Skrifa þau fullmótaða Ítalíuskrift? Er skriftin læsileg? Eru þau ánægð með sína skrift? Skiptir skriftarkennsla máli? Hversu mikla skriftarkennslu finnst þeim þau hafa fengið? Vilja þau meiri skriftarkennslu? Hafa nemendur og kennarar áhuga á skrift? Hversu mikla kennslu fá börn í skrift og hversu mikla kennslu fá kennarar í að kenna skrift? Þetta er m.a. hluti þeirra rannsóknarspurninga sem spurt var.
  Verkefnið fólst í rannsókn sem framkvæmd var í tveimur grunnskólum. 52 nemendur í 7. bekk voru beðnir um að skrifa fyrirfram ákveðinn texta á blað og svara nokkrum spurningum. Einnig var lagður spurningalisti fyrir 21 kennara sem kenna 1.-7. bekk. Verkefnið var svo unnið út frá rannsóknarniðurstöðum. Skriftarsýni voru skoðuð og borin saman við viðmiðunarskrift og unnið var úr niðurstöðum spurningakannanna.
  Helstu niðurstöður verkefnisins eru að fæst barnanna skrifa fullmótaða Ítalíuskrift (grunnskrift) en skrift tveggja stelpna er samt nokkuð nálægt því. Skriftin sem börnin skrifa er í flestum tilfellum ótengd og líkist helst Blokkskrift en það er ótengd skrift sem er meira í átt að prentstöfum. Skrift flestra barnanna er mjög ómótuð, hún er ekki skrifuð af öryggi og getur í fæstum tilfellum talist jöfn og áferðarfalleg. Í einni og sömu skrift eru stafirnir ójafnir af stærð og ekki er samræmi eða skyldleiki í formgerð þeirra. Stafirnir halla ýmist til hægri eða vinstri og þeir sitja í mismunandi hæð við línu. Meirihluti barnanna er þó nokkuð eða mjög ánægður með sína skrift og nærri helmingi finnst að þeir hafi fengið nokkra kennslu í skrift og rúmum meirihluta barnanna finnst þeir hafa fengið mikla/mjög mikla kennslu. Tæplega helmingi barnanna finnst skriftarkennsla skipta miklu/mjög miklu máli og rúmlega helmingi barnanna nokkru. Meirihluti barnanna telur nokkra, mikla eða mjög mikla þörf á aukinni áherslu á skriftarkennslu. Meirihluta kennara hefur litla, mjög litla eða enga menntun fengið í að kenna Ítalíuskrift. Meirihluta kennara finnst skriftarkennsla skipta miklu/mjög miklu máli í námi barna og telja mikla/mjög mikla þörf á aukinni áherslu á að kenna börnum að draga rétt til stafs.
  Þrátt fyrir að skrift flestra barnanna sé ekki formfögur né í líkingu við það sem lagt var upp með er skrift nær allra barnanna vel læsileg.

Samþykkt: 
 • 23.11.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/6950


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni Freyjub_Skrift barna_15.09.10.pdf11.92 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna