is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6955

Titill: 
 • Máttur hópastarfs : vettvangsathugun og viðtöl í Fjölsmiðjunni
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Þessi rannsókn var unnin sem lokaverkefni til B.A.-prófs í Tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands sumarið 2010.
  Tilgangur rannsóknar er fyrst og fremst að sýna mátt og uppeldislegt gildi hópastarfs til að efla sjálfstraust, lífsgæði og árangur ungs fólks með frávikshegðun. Jafnframt er rannsókninni ætlað að varpa ljósi á mikilvægi mennta- og uppeldisstofnana á borð við Fjölsmiðjuna sem er þjálfunar- og endurhæfingarstaður fyrir ungt fólk.
  Rannsóknaraðferð var eigindleg bæði í formi vettvangsathugunar og viðtala. Í rannsókninni var höfð að leiðarljósi rannsóknarspurningin: „Hvernig getur hópastarf í Fjölsmiðjunni bætt lífsgæði ungs fólks á krossgötum?“
  Niðurstöður byggja á vettvangsathugun og viðtölum rannsakanda sem síðan eru bornar saman við fræðilegar heimildir. Viðtölin voru greind í fjögur þemu sem lýstu sameiginlegri reynslu af dvöl þriggja ungmenna Í Fjölsmiðjunni. Þemun eru; ótti við breytingar og áskoranir, von um betra líf, þörf fyrir viðurkenningu ásamt stolti þegar vel gengur, neikvæðni og óánægja.
  Niðurstöður leiddu meðal annars í ljós að margir nemendur Fjölsmiðjunnar búa yfir ótta við breytingar og áskoranir sem getur hindrað að vonir þeirra og væntingar verði að veruleika. Þeir eru gjarnan uppfullir af neikvæðum tilfinningum vegna slæmrar reynslu af lífinu, eiga erfitt með félagstengsl og eru í sífelldri togstreitu við nærumhverfi sitt. Þessir einstaklingar hafa fá bjargráð og þegar kröfur daglegs lífs verða þeim um megn finna þeir fyrir andlegri og líkamlegri vanlíðan. Hins vegar eiga þeir allir von um betra líf, hafa sterka löngun til að standa sig vel og njóta viðurkenningar.
  Heilsufarsleg vandamál sem tengjast andlegri líðan fara versnandi meðal ungu fólki í Evrópu. Andleg- og félagsleg vandamál eru orðin eitt helsta heilsufarvandamál ungmenna og sjálfsvíg helsta dánarorsök þeirra. Helstu áhættuþættir felast í fátækt, félagslegri mismunun, einelti, einangrun og bágum fjölskyldustuðningi. Sambærilegar niðurstöður og ofangreindar koma í ljós í rannsókn sem gerð var á vegum Rannsóknar og greiningar á íslenskum ungmennum.
  Samkvæmt Berger (2007), Erikson (1968, 1974) og Jensen (1985) eru unglingsárin mikill mótunartími sjálfsmyndarinnar og sjálfsins. Á þessum árum getur hlutverkaruglingur og togstreita við ríkjandi gildi samfélagsins átt sér stað sem stundum getur birst í andfélagslegri hegðun. Úrræði fyrir ungmenni á krossgötum eru forsenda þess að slíkir frávikshópar finni sína réttu braut í lífinu.

Samþykkt: 
 • 24.11.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/6955


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
B.A. ritgerð. Máttur hópastarfs. Jóhanna B. Guðbrandsd..pdf574.34 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna