Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/6968
Innan viðurlagapólitíkur er leitast við að svara þeirri spurningu hvernig best sé að bregðast við afbrotum og hvernig koma megi í veg fyrir þau. Há afbrotatíðni er samfélagslegt vandamál sem ekki verður leyst með þyngri refsingum. Á síðari árum hefur því verið meiri áhersla á að farnar séu nýjar leiðir til að bregðast við afbrotum. Gjarnan er rætt um uppbyggilega réttvísi í þessu samhengi (e. Restorative justice). Sáttamiðlun er úrræði sem fellur undir uppbyggilega réttvísi. Gerandi og þolandi ásamt öðrum sem tengjast afbroti mætast á fundi undir stjórn sáttamanns, þar sem farið er yfir brotið og hvernig hægt sé að bæta fyrir það. Úrræðið er gamalt en hefur þó tekið breytingum í gegnum árin og er fyrirkomulag þess og vægi mismunandi eftir löndum. Þar sem reynslan af því hefur almennt verið góð fær það sífellt meira vægi.
Í þessari ritgerð, sem fjallar um sáttamiðlun, er einblínt sérstaklega á möguleika á beitingu úrræðisins í kynferðisbrotamálum. Vegna séreðlis og viðkvæmni þessara mála hefur verið efast um að þau séu vel til þess fallin að fara í sáttafarveg. Til slíkra sátta hefur þó komið erlendis. Í fyrri hluta þessarar ritgerðar er gerð grein fyrir sáttamiðlunarúrræðinu, uppruna þess, kostum og göllum, sögu þess hér á landi og fyrirkomulag sáttamiðlunar á hinum Norðurlöndunum. Í síðari hluta ritgerðarinnar er fjallað um kynferðisbrot. Þar er farið lauslega yfir málsmeðferð í kynferðisbrotamálum, fjallað um eðli þeirra og möguleika á farsælum endi í sáttamiðlun. Viðfangsefninu er skipt upp í þrjá flokka þar sem fjallað er um sáttamiðlun í nauðgunarmálum, kynferðisbrotum innan fjölskyldna og vægari kynferðisbrotum eins og kynferðislegri áreitni og brotum gegn blygðunarsemi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
1Forsida.pdf | 51,38 kB | Lokaður | Forsíða | ||
3Ritgerð.pdf | 723,27 kB | Lokaður | Meginmál |