Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7007
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 gildir sú sérregla að ógilda megi fjárskiptasamninga vegna skilnaðar. Þau skilyrði sem ákvæðið setur svo að samningur geti talist ógildur er að hann sé bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað. Í lögum er þessum skilyrðum ekki gerð nánari skil. Löggjafinn hefur á hinn bóginn sett skýr skilyrði fyrir því hvernær fjárskiptasamningar á milli hjóna skulu gerðir og hvert form þeirra skuli vera. Meginmarkmið með þessari ritgerð er þess vegna að athuga með heildstæðum hætti hvenær aðstæður geta talist þannig að samningur sé ógiltur á grundvelli sérreglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 og til hvaða viðmiða Hæstiréttur lítur til að skera úr um hvort ástæða þykir að ógilda fjárskiptasamning vegna skilnaðar. Til að þessu markmiði verði náð er nauðsynlegt að kanna dóma Hæstaréttar og rýna í til hvaða grundvallaratriða dómstólar horfa til um úrlausn þessa álitaefnis. Það ber að taka fram í upphafi að höfundur þessarar ritgerðar hefur skoðað fjölmarga dóma sem gengið hafa um fjárskiptasamninga vegna skilnaðar en aðeins hluti þeirra verður tekinn til umfjöllunar í þessari ritgerð. Hér er því ekki um tæmandi upptalningu dóma að ræða er varða ógildingu fjárskiptasamninga vegna skilnaðar.
Fyrst verður fjallað almennt um þær grundvallarreglur sem gilda um samninga hjóna um skilnaðarkjör og gerð grein fyrir þeim skilnaðarskilmálum sem löggjafinn áskilur að liggi fyrir áður en leyfi til skilnaðar að borði og sæng er veitt. Því næst tekur við meginumfjöllun ritgerðarinnar um sérreglu hjúskaparlaga um ógildingu en auk hennar hefur 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verið beitt þegar þess er freistað fyrir dómi að ógilda fjárskiptasamning vegna skilnaðar. Að svo búnu verður fjallað um málshöfðunarfrest og málsmeðferð ógildingarmála fyrir dómi og að lokum gerð stutt grein fyrir íslenskum rétti í samanburði við norrænan rétt.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
forsíða.pdf | 30.62 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Ógilding samnings um fjárskipti vegna skilnaðar.pdf | 268.88 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna |