is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/706

Titill: 
 • Ský fyrir sólu : unglingasaga fyrir unglinga á öllum aldri
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Í Aðalnámskrá er mikið lagt upp úr lestri og lesskilningi, eins og alltaf hefur verið. En áherslur hafa verið að breytast með breyttum kennsluvenjum, nýjum og ferskum hugmyndum og meiri skilningi á þörfum nemenda. Fjölgreindakenning Gardners hefur haft mikil áhrif á kennsluhætti kennara og hjálpað þeim að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að reyna að finna leið til að vekja áhuga nemenda á námsefninu. Stór hluti af því er til dæmis að nota leiklist í kennslu, kenna lífsleikni og að auka möguleika nemenda á að velja í samræmi við áhugasvið sín.
  Hvað skyldi hafa orðið til þess að ég ákvað að lokaverkefni mitt skyldi verða unglingabók? Í desember 2005 tók ég að mér bekkjasystur dóttur minnar, vegna erfiðra heimilisaðstæðna hjá henni. Hún var hjá okkur í fimm vikur og margt á heimilinu var nýtt fyrir henni. Skyndilega var hún komin í umhverfi þar sem voru reglur og skyldur. Henni bar skylda til að borða með okkur kvöldmat, baka kökur fyrir jólin og alger skylda var að söngla jólalögin. Fljótlega fór mér að þykja vænt um stúlkuna og gat ég ekki betur séð en að henni liði afskaplega vel hjá okkur. Aðfaranótt jóladags lá ég í rúminu mínu og fór að fletta unglingabók sem dóttir mín hafði fengið í jólagjöf. Stelpurnar hafa væntanlega heyrt í mér hláturinn, því áður en ég vissi af voru þær skriðnar upp í og báðu mig að lesa fyrir sig. Ég þarf líklega ekki að taka það fram að þær voru að sjálfsögðu fluglæsar. Ég las fyrir þær fyrsta kaflann og þær hlustuðu af áfergju. Eftir það var ekki aftur snúið. Það var suðað og brosað englabrosum og þegar klukkan datt í sex um morguninn las ég síðustu orðin í bókinni. Þær voru glaðvakandi, með heimskuleg bros á
  andlitunum og alsælar. Þennan jóladagsmorgunn ákvað ég að ef ég fengi leiðbeinanda til aðstoðar, þá myndi ég semja unglingabók. Þórður Helgason tók afskaplega vel í hugmyndina og hefur það verið mér sönn ánægja að vinna þetta í samráði við hann.
  Ég tel að allt of lítið hafi verið gert af því að nota skemmtilegar bækur sem undirstöðu í kennslu. Aðalatriðið er að ná athygli barnanna og nýta hann til að þjálfa þau í hinum ýmsu verkefnum. Það skiptir ekki máli hversu góður kennarinn er eða hversu margar kennsluaðferðir hann kann, ef hann nær ekki athygli þeirra þá getur hann alveg eins talað við sjálfan sig. Hægt er að nota margskonar verkefni í tengslum við skemmtilega bók, en það sem kennarar þurfa að varast er að ofnota ekki verkefnavinnuna. Hættan er sú að þegar kennarar sjá hversu áhugasamir nemendurnir eru fari þeir að ofnota verkefnin og geri sér ekki grein fyrir að það þarf að hvetja nemendur til að halda áfram að lesa (Cullinan1981:454).
  Ef kennari er með skemmtilega og áhugaverða sögu sem nær athygli nemendanna getur hann tengt verkefnin úr sögunni við marga þætti í daglegri kennslu, t.d. leiklist, heimilisfræði, samfélagsgreinar, náttúrufræði, lífsleikni og síðast en ekki síst, þjálfun í ritun og tjáningu. Góð saga kyndir undir áhuga barnanna á að vinna áfram með hana. Og þegar áhugi þeirra er á annað borð vakinn, þá eru þau æst í meira (Cullinan 1981:462).
  Sagan, Ský fyrir sólu, fjallar um Svanný, fimmtán ára stelpu sem býr með svolítið skrýtinni mömmu sinni í Breiðholtinu. Besta vinkona Svannýjar er María og eru varla til ólíkari vinkonur. María kemst að því að hún er ættleidd og þær ákveða að rannsaka málið. Inn í söguna fléttast ýmsar persónur, eins og sætasti strákurinn í skólanum, dularfulla bekkjasystirin,
  vinurinn sem kom úr skápnum og aðrar persónur. Bókin hefur margþættan boðskap, sem ég tel að tilvalið sé að nota í kennslu. Hér á eftir koma nokkrar hugmyndir sem ég hef um slíkar kennslustundir. Hugmyndin er að þessar hugmyndir séu eingöngu til að styðjast við og velja úr eftir hentisemi.

Samþykkt: 
 • 29.8.2007
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/706


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Bókin.pdf463.21 kBLokaðurBókinPDF
Greinargerð.pdf126.43 kBLokaðurGreinargerðPDF