is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7078

Titill: 
 • Farleiðir sjóbleikjuseiða í Lambeyrarkvísl í Borgarfirði
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Tvennskonar lífsferlar eru hjá bleikjum á Íslandi. Annars vegar eru staðbundnar bleikjur sem dvelja allan sinn aldur í ferskvatni, hins vegar sjóbleikjur sem geta dvalið fyrstu ár ævi sinnar í fersku vatni sem seiði og gengið eftir það árlega til sjávar yfir sumartímann og dvalið í ferskvatni yfir veturinn. Staðbundin bleikja og sjóbleikja eru útbreiddar um allt land.
  Lífsferill og far sjóbleikjustofna getur verið margbreytilegt. Seiðin alast upp í þeirri á þar sem foreldrarnir hrygndu, en ganga síðan til sjávar yfir sumartímann. Í sjó dvelur bleikjan mest við ströndina og fer ekki langt frá sinni upprunaá. Hún gengur síðan upp í ferskvatn síðla sumars eða að hausti og dvelur veturlangt í fersku vatni. Sá fiskur sem ætlar ekki að hrygna á komandi hausti getur gengið upp í aðrar ár en sína heimaá og haft þar vetursetu. Bleikjustofn/-ar á vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði eru gott dæmi um stofn sem fer um nokkur mismunandi vatnsföll og í sjó á lífsskeiði sínu. Líkur benda til að hrygningarstöðvarnar séu einkum efst í Hvítá, þar sem bleikjan nýtir sér lindarlæki sem hrygningarsvæði (Ingi Rúnar Jónsson og Sigurður Már Einarsson, 2009).Verðmæti bleikjuveiða á Íslandi er verulegt og má sem dæmi nefna að árið 2008 voru skráðar um 30 þúsund stangveiddar bleikjur hér á landi (Guðni Guðbergsson, 2009). Mikilvægi silungastofna til stangveiði á að öllum líkindum eftir að aukast enn á næstu árum, samhliða aukinni eftirspurn eftir ódýrari veiðimöguleikum. Sjóbleikjan í Hvítá í Borgarfirði er verðmæt auðlind og er bleikjan bæði veidd í net og á stöng. Bleikjan gengur seint til hrygningar og fer bleikjuveiðin einkum fram þegar hún gengur á hrygningarsvæðin, sem getur verið allt fram í október. Vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði er með fiskauðugustu svæðum landsins, en t.d. fara um 20% laxveiði á stöng á Íslandi fram á vatnasvæði hennar (Guðni Guðbergsson, 2009). Veiðiskýrslur sýna þó að heildarveiði á bleikju í Hvítá hefur dregist mjög saman á síðustu árum, sem bendir til að stofnstærð bleikjunnar hafi minnkað á vatnasvæðinu.
  Markmið verkefnisins er að meta mikilvægi Lambeyrarkvíslar sem hrygningar- og uppeldissvæðis fyrir sjóbleikju í Hvítá í Borgarfirði. Þetta var gert með mati á hrygningu bleikjunnar, mati á seiðaþéttleika og mati á fari seiða niður úr kvíslinni.
  Leitast þannig við að auka þekkingu á lífsháttum sjóbleikjunnar og samspili umhverfisþátta. Þekking á sjóbleikjustofnum er undirstaða skynsamlegrar umgengni við þessa fiskistofna í framtíðinni, samtvinnun verndar- og nýtingarsjónarmiða.
  Mikilvægi Lambeyrarkvíslar sem hrygningarstöðvar var m.a. kannað með talningu riðbletta í Lambeyrarkvísl haustið 2008 og fundust 158 riðblettir. Mat á búsvæðum fyrir bleikjuseiði í Lambeyrarkvísl í Borgarfirði fór fram haustið 2008. Farið var með öllum fiskgengna hluta árinnar að fossi ofarlega í gilinu, sem talinn er ófiskgengur. Lambeyrarkvísl var skipt í tvo einsleita kafla út frá botngerð og halla og voru botngerðir misjafnar. Á efra svæðinu (kafli 1) var botngerðin frekar gróf: möl 43,3% og smágrýti 56,7%. Neðra svæðið (kafli 2) var með minni halla og fínni botngerð: sandur 43,7%, möl 50,5% og smágrýti 5,8%. Framleiðslugildi var einnig misjafnt milli kafla, á kafla 1 var gildið 40,6 og á kafla 2 var gildið 26,5. Seiðabúskapur Lambeyrarkvíslar var athugaður með rafveiðum á tímabilinu 15. maí til 14. ágúst 2009. Rafveitt var á þremur stöðvum í alls fjórum ferðum og voru svæðin misstór. Fjöldi seiða á 100 m² (seiðaþéttleiki) var mestur hjá 1 árs og 2 ára seiðum. Meðalástandsstuðull var í kringum 1. Hjá 0+ var hann minnstur 0,83 en mestur hjá 2+ og 3+ eða 1,01. Lítill seiðaþéttleiki (fjöldi seiða á 100m²) var á öllum stöðvum samanlagt, meðalþéttleikinn hjá 0+ var 0,15, hjá 1+ var 2,58, hjá 2+var 2,57 og hjá 3+ var 0,17 M Hér mættu koma fram meðaltöl fyrir seiðaþéttleikann á öllum stöðvum til að sýna hversu lágur hann er
  Kannað var magn seiða sem gengu niður úr Lambeyrarkvísl með því að setja niður þrjár seiðagildrur sumarið 2009. Alls veiddust 148 seiði í gildrurnar, mest af vorgömlum (0+) seiðum í 24. viku. Hitasíritar eru bæði í Lambeyrarkvísl og Hvítá og eru gögn frá þeim notuð í verkefninu.

Samþykkt: 
 • 20.12.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/7078


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokaverkefni bs Ásgeir Hlinason.pdf1.53 MBOpinnPDFSkoða/Opna