is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7164

Titill: 
  • Trúfrelsi og jafnrétti trúfélaga
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í 63. og 64. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er mælt fyrir um trúfrelsi. Í 63. gr. segir að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Í 64. gr. kemur fram sú regla að ekki megi skylda neinn til aðildar að tilteknu trúfélagi, og verndar reglan því að sama skapi rétt manna til að standa utan trúfélaga. Í ákvæðinu segir einnig að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna og er reglan því nátengd reglunni um jafnræði borgaranna sem lögfest hefur verið í 65. gr. stjskr. Á það hefur verið bent að ákvæði 62. gr. stjskr. sem mælir fyrir um sérstöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju og skyldu ríkisins til að styðja og vernda hana, samrýmist illa grundvallarreglum um trúfrelsi og jafnræði. Erfitt getur reynst, og jafnvel ómögulegt, að halda bæði 62. og 65. gr. í heiðri, enda gengur tilgangur ákvæðanna hvor í sína áttina. Á Íslandi nýtur Þjóðkirkjan mun sterkari stöðu en önnur trúfélög í landinu. Helgast þetta af fyrrgreindu ákvæði 62. gr. og af ráðandi stöðu hennar að öðru leyti, bæði með tilliti til sögu kirkjunnar og fjölda skráðra meðlima hennar, svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að færa rök fyrir því að sum þeirra sérréttinda sem Þjóðkirkjan nýtur að lögum byggist ekki á lögmætum og málefnalegum forsendum. Mætti þar nefna sem dæmi ýmiss konar fjárveitingar í hennar þágu sem önnur trúfélög geta ekki gert tilkall til. Á þetta álitaefni hefur m.a. reynt í Hrd. frá 27. október 2008 í máli Ásatrúarfélagsins gegn íslenska ríkinu, en þar krafðist stefnandi þess, sem er skráð trúfélag á grundvelli laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög að sér yrði tryggður sami fjárhagslegi stuðningur og Þjóðkirkjan, enda væri staða þeirra sambærileg að flestu leyti. Á vegum alþjóðlegra eftirlitsstofnana með mannréttindasamningum sem Ísland hefur fullgilt hefur nokkuð verið fjallað um jafnrétti trúfélaga og hið svokallaða ríkiskirkjukerfi sem veitir einu trúfélagi sérstöðu í lögum umfram önnur. Þrátt fyrir að hafa ekki lýst tilvist ríkiskirkna í sjálfu sér ósamrýmanlega trúfrelsi, hafa stofnanirnar mælt fyrir meginreglunni um hlutleysi ríkja þegar kemur að afskiptum þeirra af ólíkum trúarbrögðum, og því að með öllu beri að forðast að gera upp á milli trúarskoðana manna, m.a. með því að veita einu trúfélagi fjárhagsleg forréttindi umfram önnur. Í þessari ritgerð er leitast við að lýsa þeim ákvæðum íslenskra laga sem snúa með einum eða öðrum hætti að trúarbrögðum, og þau borin saman við ákvæði alþjóðlegra mannréttindasamninga og dómaframkvæmd eftirlitsstofnana með þeim. Að því loknu verður reynt að draga ályktanir um hvort íslensk lög veiti reglunni um trúfrelsi nægilega mikla vernd, eða hvort hugsanlega sé einhverra breytinga þörf svo hér ríki fullt jafnræði á milli trúarskoðana.

Samþykkt: 
  • 7.1.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7164


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokamasterskjal.pdf783.68 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna