Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7169
Það má slá því föstu að mannréttindaákvæði eru ein mikilvægustu réttindi sem ríki setja í löggjöf sína enda tryggja flest öll lýðræðisríki nú á dögum að mannréttindum séu veitt rík vernd. Mannréttindaákvæðum er m.a. ætlað að tryggja þegnum ríkis ákveðin grundvallar- réttindi og ríkisvaldinu í raun sett ákveðin mörk gagnvart borgurum sem það má ekki seilast yfir.
Líklegast eru flestir sammála því að í einkalífsverndinni felast gríðarlega mikilvæg og viðkvæm réttindi. Friðhelgi einkalífs nýtur verndar í 71. gr. stjórnarskrár okkar en núgildandi stjórnarskrá var lögfest með stjórnskipunarlögum nr. 33/1944 (hér eftir nefnd stjskr.). Samkvæmt 71. gr. stjskr. skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Verndin er þó ekki án takmarkana því í 3. mgr. 71. gr. stjskr. er heimild til takmörkunar á einkalífsverndinni vegna réttinda annarra ef sérstök lagaheimild er til staðar. Einkalífsverndinni er ekki eingöngu veitt vernd í stjórnarskrá okkar heldur einnig í almennum lögum og þeim mannréttindasáttmálum sem íslenska ríkið er aðili að.
Í nútímasamfélagi kvikna oft deilur um það hversu langt má ganga í opinberri umfjöllun um persónuleg málefni manna og fylgir þá oftar en ekki myndefni til að skreyta umfjöllunina eða gefa skýrari mynd af því sem fjallað er um. Við þessar deilur rekast á tvær grundvallarreglur stjórnarskrárinnar; áðurnefnd 71. gr. stjskr. um friðhelgi einkalífs og verndun tjáningarfrelsisins samkvæmt 73. gr. stjskr. Tjáningarfrelsið er mikilvægt í þjóðfélagi líkt og okkar þar sem rík krafa er um mikið upplýsingaflæði og hefur almenningur rétt á því að öðlast þekkingu og viðra hugmyndir sínar án afskipta stjórnvalda eða annarra. Það sama á við um mikilvægi einkalífsverndarinnar en upplýsingaflæðið er mikið og vernd einkamálefna bíður þess oftar en ekki hnekki. Það liggur ekki í augum uppi við þennan árekstur hvor réttindin skuli víkja en sú ákvörðun byggist á mati ýmissa hagsmuna sem varða vernd þessara réttinda en flókin álitaefni geta skapast.
Eftirfarandi umfjöllun mun beinast að því að reyna varpa ljósi á það hvaða réttarreglur gilda um myndvernd einstaklinga hér á landi. Staðreyndin er sú að fjölmiðlar hafa orðið ákafari með árunum og tæknin til þess að taka myndir og miðla þeim verður fullkomnari með hverjum deginum. Við þessa tækniþróun hefur íslenskt samfélag orðið þannig að gífurlegur fjöldi einstaklinga gengur með búnað á sér daglega sem gerir þeim kleift að öðlast myndefni til miðlunar. Stafrænar myndavélar eru til á flestum heimilum en einnig hefur áberandi fjöldi þjóðarinnar eignast farsíma og eru þeir flestir þannig búnir að hægt er að taka myndir og jafnvel myndbönd á þá. Einnig hafa fjölmiðlar fjölda ljósmyndara búna dýrum tækjum sem gera þeim kleift að taka nákvæmar ljósmyndir úr mikilli fjarlægð. Fjölgun myndavéla, ákafi fjölmiðla og ör þróun netsins hafa gert það að verkum að myndefni ratar æ oftar á vettvang þar sem fjöldi fólks getur borið það augum.
Markmið umfjöllunarinnar er, eins og áður segir, að gera grein fyrir því hvaða réttarreglur gilda um myndvernd einstaklinga hér á landi, þ.e.a.s. hvenær birta má mynd af manni, lifandi eða látnum, eða nota hana á einhvern hátt án samþykkis þess manns eða bærs aðila. Myndvernd einstaklings er á verndarsviði friðhelgis einkalífs en ljóst er að reglurnar varðandi friðhelgi einkalífs skarast á við verndarsvið tjáningarfrelsisins.
Umfjöllunin mun beinast að því að reyna að greina frá þeim sjónarmiðum sem eiga við þegar deilt er um lögmæti myndbirtingar og yfirferð viðeigandi réttarreglna. Ekki verður sérstaklega tekið á því hver er ábyrgur fyrir þeirri birtingu því flókin álitaefni geta varðað það efni sem líklega er efni í aðra ritgerð. Ekki er um að ræða tæmandi umfjöllun varðandi þetta efni enda ótal ágreiningsefni sem upp geta komið og þar að auki er tækniþróun gríðarlega hröð og af þeim sökum skapast reglulega ný álitaefni sem ekki eru fyrirséð við þessi skrif.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Myndvernd manna(lokadrög).pdf | 952.62 kB | Lokaður | Heildartexti |