Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/7186
Næring er ein af grunnþörfum líkamans. Algengt er að tíðni vannæringar á almennum legudeildum sjúkrahúsa sé í kringum 20% og jafnvel hærri meðal einstakra sjúklingahópa. Rannsóknir hafa sýnt að vannæring leiðir til aukinnar áhættu á fylgikvillum, lengir legutíma, skerðir lífsgæði og getur leitt til aukins sjúkrahúskostnaðar. Þekking á næringartengdum viðfangsefnum og jákvæð viðhorf í þeirra garð eru mikilvæg undirstaða árangursríkrar meðferðar sjúklinga á sjúkrahúsum. Hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki varðandi næringu sjúkra vegna nálægðar við sjúklinga á sjúkradeildum.
Markmið verkefnisins var að kanna viðhorf og þekkingu hjúkrunarfræðinga á næringartengdum þáttum og að meta næringarástand sjúklinga við innlögn á skurð- og lyflækningardeildir á Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA).
Notuð var tvíþætt lýsandi þversniðskönnun: (1) Þýddur og staðfærður spurningalisti sem kannar þekkingu og viðhorf til næringar sem hjúkrunarmeðferðar var lagður fyrir hjúkrunarfræðinga á legudeildum (N=90) á FSA. (2) Á fjórum legudeildum FSA voru sjúklingar (n=102) skimaðir fyrir áhættu á vannæringu með gildu (íslensku) skimunartæki.
Svörun í fyrri hluta rannsóknarinnar var 63,3%. Viðhorf til næringar sem hjúkrunarmeðferðar var jákvætt hjá 46% þátttakenda. Tæplega 60% töldu aðgengi að næringarfræðingum of lítið þegar þörf er á. Rannsóknin gefur vísbendingar um að þekking hjúkrunarfræðinga á næringartengdum þáttum takmörkuð og að jafnaði voru 62% þátttakenda óörugg í svörum sínum við almennum þekkingarspurningum.
Skimun sjúklinga við innlögn benti til þess að 21% sjúklinga væru vannærð. Líkamsþyngdarstuðull yfir 25 kg/m2 sást meðal 58% sjúklinga við innlögn.
Rannsóknin sýndi að tíðni vannærðra sjúklinga á FSA var svipuð og hjá sambærilegum sjúklingahópi sem rannsakaður var á Landspítala.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að hjúkrunarfræðingar þurfi að verða jákvæðari til næringar sjúkra, hafa meira aðgengi að næringarfræðingum og verða öruggari um eigin þekkingu á næringu sjúkra. Efla þarf jákvæð viðhorf og gera hjúkrunarfræðinga öruggari í þverfaglegu samstarfi um næringartengda þætti en ætla má að það muni leiða til betri næringar sjúklinga á sjúkrahúsum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Hjúkrun og næring sjúklinga.pdf | 1.95 MB | Open | Heildartexti | View/Open |