is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Þverfræðilegt nám > Umhverfis- og auðlindafræði >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7248

Titill: 
  • Áhrif stefnumótunar í umhverfismálum á samkeppnishæfni íslenskra framleiðslufyrirtækja
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Fyrirtæki á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum þurfa sífellt að mæta kröfum um aukna umhverfisvernd og þær kröfur munu ekki minnka í framtíðinni. Hvernig stjórnendur fyrirtækja bregðast við þessum kröfum getur skipt sköpum hvað varðar samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þessi ritgerð er fyrsta skrefið til að skoða hvaða áhrif stefnumótun í umhverfismálum hefur á samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi.
    Rannsóknin er gerð samkvæmt megindlegri aðferðafræði og fólst í könnun meðal framleiðslufyrirtækja á Íslandi. Rannsóknin er gerð að erlendri fyrirmynd og byggist á rannsókn Karagozoglu og Lindell (2000) og spurningalista sem þar má finna. Spurningalistinn var styttur úr 27 spurningum niður í 16 spurningar þar sem eingöngu hluti rannsóknarinnar verður nýttur í þessari rannsókn. Spurningarnar skiptust niður á fjóra kafla: Stefna í umhverfismálum, frumkvæði og nýsköpun, samkeppnisforskot í umhverfismálum og fjárhagsleg afkoma. Til viðbótar við þessar 16 spurningar var spurt um umhverfisvottun og að lokum var spurt um starfsmannafjölda fyrirtækjanna. Spurningar voru því samtals 18.
    Könnunin var stíluð á framkvæmdastjóra eða framleiðslustjóra og send í tölvupósti á netföng 437 framleiðslufyrirtækja á Íslandi. Könnunin átti sér stað frá september til nóvember 2010. Alls svöruðu 139 fyrirtæki spurningunum og var svarhlutfallið 32%. Við úrvinnslu rannsóknarinnar var notuð fylgnigreining og aðhvarfsgreining til að prófa þær tilgátur sem settar voru fram í rannsókninni.
    Rannsóknin sýnir fram á jákvæð tengsl stefnumótunar í umhverfismálum við allar breytur rannsóknarinnar. Það virðist því vera að stefnumótun sé fyrsta skref fyrirtækja sem hafa áhuga á að mæta auknum kröfum í umhverfismálum með aukna samkeppnishæfni í huga. Einnig sýnir rannsóknin jákvæð áhrif stefnumótunar á nýsköpun fyrirtækja í umhverfismálum, nýsköpunin hefur jákvæð áhrif á samkeppnisforskot vegna umhverfismála og samkeppnisforskotið hefur jákvæð áhrif á fjárhagslega afkomu. Að lokum kom fram að þau fyrirtæki sem hafa umhverfisvottun eða umhverfisstjórnunarkerfi af einhverju tagi standa sig betur í þeim þáttum sem voru kannaðir en önnur fyrirtæki.

Samþykkt: 
  • 13.1.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7248


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hronn_Hrafnsdottir_meistararitgerd_x.pdf2.51 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna