Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7359
Var Sókrates írónisti? Í ritgerð sinni, Um hugtakið írónía með samfelldri hliðsjón af Sókratesi (Om Begrebet Ironi med stadigt Hensyn til Socrates), fullyrðir danski heimspekingurinn Søren Aabye Kierkegaard (1813–1855) að Sókrates (469 f.k.–399 f.k.) hafi verið írónisti. Hann hafi hins vegar verið írónisti á sinn svo mjög sérstaka máta. Í þessari ritgerð mun ég gera grein fyrir þessu verki Kierkegaards, útlista meginkenningu þess og kanna gildi hennar fyrir skilning okkar á heimspeki Kierkegaards. Útlistunin felst í því að útskýra hvernig heimfæra megi túlkun Kierkegaards á íróníu sem lífsviðhorfi og heimssýn upp á hinn sanna karakter Sókratesar, eins og honum er lýst í Málsvörn Sókratesar eftir Platón. Fyrst mun ég lýsa ólíkum túlkunum á íróníu og hvernig Kierkegaard tengir íróníska sjónarmiðið við Sókrates. Síðan mun ég einbeita mér að þeim heimildum sem Kierkegaard notar, þ.e. ritum Xenofóns, Platóns og Aristófanesar, og hvernig hann nýtir sér þau til að bera kennsl á írónistann Sókrates. Því næst mun ég íhuga hvernig Kierkegaard leiðir fram túlkun sína á hinum sanna Sókratesi með hjálp þeirra deilna sem umliggja Málsvörn Sókratesar. Að endingu mun ég hugleiða áhrif og ítök sókratísku íróníunnar á feril Kierkegaards sem leiddu meðal annars til notkunar hans á óbeinum samskiptum í verkum sínum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA verkefni.pdf | 214.88 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna | |
efnisyfirlit.pdf | 58.49 kB | Opinn | Efnisyfirlit | Skoða/Opna | |
forsíða.pdf | 55.39 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
titil síða.pdf | 41.68 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna |