is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7360

Titill: 
 • „Dvergar á öxlum.“ Greining á víkingaaldarnælum á Íslandi frá heiðnum sið
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Á Íslandi hafa fundist fjölmargar víkingaaldarnælur víðs vegar um landið. Langflestar þeirra eru kúptar nælur eða tæplega 50 talsins. Aðrar tegundir af nælum sem hafa fundist hérlendis eru kringlóttar nælur, tungunælur og þríblaðanælur en af kringlóttum nælum hafa fundist 15, tvær af tungunælum og 10 þríblaðanælur. Margar þeirra hafa fundist í kumlum, þá í flestum tilfellum í kumlum kvenna, en einnig hafa nælur fundist sem lausafundir.
  Rannsóknir á nælum hafa að mestu snúist um kúptar nælur enda til mörg hundruð, ef ekki þúsundir, slíkra næla í heiminum. Jan Petersen var meðal fyrstu til að flokka þær með mjög skipulögðum hætti en forveri hans, Oluf Rygh, gerði það einnig en þó ekki á eins nákvæman hátt. Ingmar Jansson sá síðan um að greina kúptar nælur sem höfðu fundist í Bjarkey. Kristján Eldjárn var síðan sá maður sem flokkaði íslenskar nælur sem fundnar höfðu verið fram að 1956 í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé.
  Þessar nælur eru mismunandi skreyttar og á þeim finnst jafnan skreyti í Ásubergsstíl, Borróstíl og Jalangursstíl. Flestar hafa þó fundist í Borróstíl en ekki eru þó allar skreyttar með hreinum stíl. Myndefnið á nælunum gat verið mismunandi en dýraskreyti var langalgengast. Útlit nælanna breyttist með tímanum og þar á meðal skreyti þeirra. Kúptar nælur voru mjög vinsælar um hin norrænan heim, þá sérstaklega ákveðnar gerðir, en flestar konur virðast hafa borið par af slíkum nælum á brjósti sér. Kringlóttar nælur voru einnig nokkuð vinsælar enda oft bornar sem þriðja nælan en þríblaðanælur gegndu einnig því hlutverki. Tungunælur eru þó sjaldgæfastar af ofangreindum nælutegundum.
  Fjöldaframleiðsla var algeng á nælum þar sem eftirlíkingar voru gerðar af frumgerðum úr eðalmálmum. Slíkar nælur voru ódýrari og voru gjarnan framleiddar á verslunarstöðum, svo sem í Bjarkey í Svíþjóð, Heiðabæ í Danmörku og Kaupangri í Noregi, af sérhæfðum handverksmönnum sem höfðu þar fasta búsetu eða þá árstíðabundna dvöl. Eftirlíkingarnar voru gerðar helst úr bronsi. Blaðgull og víravirki var notað til þess að gera nælurnar líkari frumgerðum. Ekki virðist vera miklar líkur á því að nælur voru framleiddar hérlendis heldur hafi þær verið innfluttar. Landnámsmenn gætu þó hafið borið þær með sér yfir hafið þegar þeir fluttust búferlum.
  Dreifing næla hérlendis nær nokkuð vítt yfir landið en hafa þó ekki fundist í öllum sýslum landsins. Langflestar hafa þær fundist í N-Múlasýslu en í Múlasýslunum tveimur hafa fundist mörg kuml, sem liggja frekar þétt saman, og virðist það helst benda til þéttrar búsetu á víkingaöld sem gæti verið ástæðan fyrir þeim mikla fjölda næla sem fundust í fyrrnefndri sýslu.

Samþykkt: 
 • 20.1.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/7360


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð.pdf24.33 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna