Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7435
Snjóflóðin á Vestfjörðum 1995 verða lengi í minnum landsmanna. Í kjölfar flóðanna var í fyrsta sinn veitt þjónusta undir nafni áfallahjálpar hér á landi. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna nýtingu og viðhorf þolenda til áfallahjálparinnar og stuðnings og viðbragða ýmissa aðila og stofnana eftir flóðin, til dæmis björgunarsveita og fjölmiðla. Einnig var markmið rannsóknarinnar að kanna hvort munur væri á áfallastreitueinkennum og almennri geðheilsu þátttakenda eftir því hvort þeir fengu áfallahjálp eða ekki. Rannsóknargögnin voru unnin úr spurningalista sem lagður var fyrir íbúa Súðavíkur og Flateyrar 3-14 mánuðum eftir að snjóflóðin féllu. Þátttakendur voru 122 íbúar Súðavíkur og 169 Flateyringar sem voru 16 ára og eldri þegar flóðin féllu. Áfallastreitueinkenni voru metin með Impact of Event Scale (IES) og Post-traumatic Symptom Scale (PTSS-10) og geðheilsa var metin með General Health Questionnaire (GHQ-30). Niðurstöður sýndu að um 60% þátttakenda frá Súðavík og 70% þátttakenda frá Flateyri sem voru búsettir á stöðunum þegar flóðin féllu fengu áfallahjálp og voru alls um 70% þátttakenda frá Súðavík og 80% þátttakenda frá Flateyri mjög eða frekar ánægðir með hana. Mat á stuðningi og viðbrögðum leiddi í ljós að flestir voru ánægðir með viðbrögð sjúkrahúss, björgunarsveita og almennings. Margir voru óánægðir með fjölmiðla og bæjaryfirvöld. Þeir sem fengu áfallahjálp sýndu fleiri áfallastreitueinkenni lífeðlisfræðilegrar örvunar og verri almenna geðheilsu en þeir sem fengu ekki slíka hjálp. Þeir sem fengu áfallahjálp voru einnig líklegri til að ná viðmiðum um einkenni geðvanda. Ekki reyndist munur á mati fólks á stuðningi eftir því hvort það fékk áfallahjálp eða ekki. Að lokum voru þeir sem upplifðu einkenni áfallastreituröskun óánægðari með stuðning og áfallahjálp heldur en þeir sem ekki upplifðu slík einkenni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-LOKAEINTAK.pdf | 586.02 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |