Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7441
Átraskanir eru alvarleg, heilsuspillandi vandamál sem herja á fjölmargar stúlkur og konur á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að athuga tengsl fullkomnunaráráttu og sjálfsálits við lotugræðgi á Íslandi. Hafa þessi tengsl komið fram í erlendum rannsóknum á þann hátt að þeir sem hafa slakt sjálfsálit og mikla fullkomnunaráráttu eru líklegri til að þróa með sér lotugræðgi. Engar íslenskar rannsóknir hafa athugað þessi tengsl hér á landi. Var rannsókn þessi framkvæmd með það fyrir augum að auka við þekkingu á því hvaða persónueinkenni eru mest áberandi hjá þeim sem greinast með lotugræðgi. Tilgátur rannsóknarinnar voru þrjár. Tilgáta 1: Jákvætt samband er á milli fullkomnunaráráttu og lotugræðgi. Með því er átt við að eftir því sem fullkomnunarárátta eykst, er viðkomandi líklegri að greinast með lotugræðgi. Tilgáta 2: Gert er ráð fyrir neikvæðu sambandi á milli sjálfsálits og lotugræðgi. Með þessu er átt við að þeir sem hafa lágt sjálfsmat eru í aukinni áhættu að greinast með lotugræðgi. Tilgáta 3: Gert er ráð fyrir því að samband fullkomnunaráráttu og lotugræðgi sé háð sjálfsáliti. Áhrif fullkomnunaráráttu á þróun lotugræðgi eru mest þegar sjálfsálit er slakt en minnst þegar sjálfsálit er gott. Þeir sem hafa gott sjálfsálit eru þá ólíklegastir til að greinast með lotugræðgi en þeir sem hafa áberandi slakt sjálfsálit líklegastir til að greinast. Þátttakendur voru 405 konur við Háskóla Íslands sem fylltu út eftirfarandi lista: BULIT-R sem greinir hvort lotugræðgi sé til staðar, Fjölvíddakvarða Frosts (Frost MPS) sem gefur til kynna hvort viðkomandi þjáist af fullkomnunaráráttu og Sjálfsálitskvarða Rosenbergs (RSE) sem sýnir framá það hversu gott og/eða slæmt sjálfsálit fólk hefur. Tilgátur 1 og 2 voru studdar í rannsókninni en víxlhrifin sem athuguð voru í tilgátu 3 reyndust tölfræðilega ómarktæk. Fullkomnunarárátta og sjálfsálit komu hér fram sem algeng persónueinkenni hjá konum með lotugræðgi á Íslandi. Mögulega væri hægt að nýta niðurstöður rannsóknarinnar til fyrirbyggjandi aðgerða og við sálræna meðferð þegar lotugræðgi er meðhöndluð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Olga Jenný Gunnarsdóttir - Lotugræðgi BS-rannsóknarverkefni.pdf | 276.3 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |