Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7557
Markmið rannsóknarinnar var að meta hvíldarhjartslátt íslenska hestsins og taka auk þess stöðumat á álagi keppnishesta í fimm keppnisgreinum Meistaradeildar KS árið 2010. Hjartsláttarmælingar fóru fram á skólahestum í hvíld. Í tengslum við keppnina fóru fram hjartsláttarmælingar í upphitun forkeppnishesta, í keppninni sjálfri, mjólkursýrumælingar í blóði eftir keppni og öndunartíðnimælingar fyrir og eftir keppni. Úrtakshestar voru valdir út frá rásröð þar sem þeim var raðað niður tilviljanakennt.
Hjartsláttargildi íslenska hestsins í hvíld var 39 slög á mínútu, til samræmis við áður fengnar niðurstöður, 30-40 slög á mínútu. Mikil breidd var í gagnasafninu á mældum gildum. Ekki fundust nein aldursáhrif. Meira álag var á sprettgreinunum smala og skeiði sem kom fram í háum gildum meðalhjartsláttar í keppni og háum gildum mjólkursýrumagns í blóði. Öndunartíðni eftir keppni var lægst í þessum greinum. Forkeppni gaf hærri hjartsláttargildi en úrslitakeppni, hún var styttri og snarpari. Við greiningu á mismunandi gangtegundum í keppni gaf fet lægstan meðalhjartslátt og skeiðið hæstan þó bilið milli þess og hinna gangtegundanna væri ekki mikið. Frekari greining á tölti í töltkeppni gaf há hjartsláttargildi á yfirferðinni, 191 slag á mínútu að meðaltali.
Marktækt samhengi fékkst milli mjólkursýru við bæði hjartslátt í keppni og öndunartíðni eftir keppni. Hærri hjartsláttur fór saman með hærri mjólkursýrugildum. Samhliða háum mjólkursýrugildum fór lægri öndunartíðni eftir keppni. Mjólkursýrugildi sýndu að hestar voru að meðaltali að vinna yfir mjólkursýruþröskuldinum sem er 4 mmól/l. Há gildi hjartsláttar og mjólkursýru gáfu til kynna að átök voru í gangi hjá hestunum og loftfirrða kerfið var virkjað til að koma á móts erfiðið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Stodumat keppnishesta_Sigridur_loka.pdf | 737.97 kB | Opinn | Skoða/Opna |