is Íslenska en English

Skýrsla

Háskóli Íslands > Verkfræði- og náttúruvísindasvið > Rit starfsmanna >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7589

Titill: 
  • Búseta og þjónusta: Athugun á áhrifum þjónustustigs á brottflutning frá völdum byggðarlögum 1996–2006
Útgáfa: 
  • Janúar 2008
Útdráttur: 
  • Verkefni þetta var unnið fyrir Byggðastofnun og tengist framkvæmd þingsályktunar frá 2006 um stefnumótandi byggðaáætlun, þar sem kveðið var á um hugað yrði sérstaklega að byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun.
    Markmið þessa verkefnisins er að kanna hvort framboð á þjónustu hafi áhrif á ákvarðanir fólks um búsetu. Settar voru fram tilgátur um að brottflutningur sé því meiri sem þjónustustig á staðnum sé lægra og lengra sé að fara til næsta stærri þjónustukjarna.
    Kannað var samband þjónustustigs og brottflutnings frá sveitarfélögum þar sem fækkaði um a.m.k. 10% á árunum 1996–2006 og a.m.k. 6,5% á árunum 2001–2006. Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um hvert sveitarfélag sem skoðað var og taldar upp
    helstu tegundir þjónustu sem þar er að finna.
    Vikið var frá sveitarfélagamörkum í nokkrum tilfellum, þar sem aðskildir þéttbýliskjarnar eru innan sama sveitarfélags. Hver þéttbýliskjarni var þá skoðaður sérstaklega.
    Upplýsingum var safnað um hvort tilteknar tegundir verslunar og þjónustu væru til staðar í byggðarlaginu. Leitað var til fulltrúa atvinnuþróunarfélaga, sveitarstjórnarfólks og annarra staðkunnugra, auk þess að byggja á öðrum tiltækum gögnum. Ekki var gerð tilraun til að meta gæði þjónustunnar.
    Út frá þessum gagnagrunni var reiknað heildarþjónustustig fyrir hvert byggðarlag. Nokkrar tegundir verslunar og þjónustu fengu sérstakt vægi í útreikningunum, byggt á huglægu mati þeirra er unnu að verkefninu. Hvert byggðarlag gat hlotið 100 stig hið mesta.
    Fyrir sveitahreppa án eigin þjónustukjarna, en sem liggja mjög nálægt þéttbýlisstað í öðru sveitarfélagi, var þjónustustig hreppsins miðað við þjónustustig hins nálæga þéttbýlis.
    Þjónustustig byggðakjarna er mjög háð íbúafjölda. Á flestum stöðum með 1000 íbúa eða fleiri er sæmilega fjölbreytt framboð á þjónustu, um og yfir 80 stig samkvæmt forsendum verkefnisins.
    Gerðir voru fylgni- og aðhvarfsútreikningar fyrir samband þjónustustigs og íbúaþróunar, annars vegar fyrir tímabilið allt og hins vegar fyrir síðari hluta þess. Marktæk fylgni kom fram í öllum tilfellum. Útreikningarnir staðfesta þá tilgátu að lágt
    þjónustustig stuðli að meiri brottflutningi en ella, og á hinn bóginn að mikið framboð á þjónustu dragi úr brottflutningi.
    Nokkur neikvæð fylgni reyndist á milli aksturstíma til næsta stærri þjónustukjarna og íbúaþróunar byggðarlagsins. Sambandið er ekki ýkja sterkt, en þó marktækt tölfræðilega. Því lengra sem íbúar þurfa að sækja til stærri kjarna með fjölbreyttri þjónustu, því meiri brottflutningur hefur átt sér stað.
    Fjarlægð til Reykjavíkur skiptir ekki máli fyrir íbúaþróun þeirra byggðarlaga sem skoðuð voru, en þau eru öll utan daglegs áhrifasvæðis borgarinnar.
    Vakin er athygli á að þjónustustig var einungis kannað eftir á, en ekki voru handbær gögn um stöðu þjónustu áður en það tímabil sem greiningin tekur til hófst. Þar með er gert ráð fyrir að þjónusta hafi lítið breyst á tímabilinu, sem er talsverð einföldun. Bent
    er ennfremur á að þjónustustigið er einungis ein af fjölmörgum breytum sem áhrif hafa á ákvarðanir fólks um búsetu.
    Í lok skýrslunnar er bent á ýmsar leiðir til áframhaldandi rannsókna á samhengi þjónustu og byggðaþróunar. Brýnt er að bæta skipulag á söfnun og framsetningu gagna um byggðamál ef skapa á byggðarannsóknum hérlendis traustari grunn. Ekki er unnt að byggja einvörðungu á gögnum á sveitarfélagagrunni.

Samþykkt: 
  • 21.2.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/7589


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Buseta_og_thjonusta.pdf1,51 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna