Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7722
Áhrif tækninnar á nám hafa verið mikið til umfjöllunar undanfarinn áratug og er fræðslustarf innan fyrirtækja þar í engu undanskilið. Tilkoma og þróun þess er rakin hér. Fjallað er um starfstengda fræðslu í ljósi námskenninga um kennslu fullorðinna. Einnig er litið til þess, í hvaða tilfellum tæknistutt nám sé vel til þess fallið að skila ákveðinni fræðslu og hvenær það henti síður.
Eigindleg rannsókn var framkvæmd til að fá mynd af stöðu tæknistudds náms í fræðslustarfi sex íslenskra fyrirtækja. Á sumar- og haustmánuðum 2010 voru tekin hálfopin viðtöl. Viðmælendur voru fræðslustjórar fyrirtækjanna, hugbúnaðarsérfræðingur og tveir söluaðilar rafræns námsefnis. Leitast var við að draga upp mynd af fræðslustarfi í fyrirtækjunum og ástæður þess að notast er við tæknistuddar útfærslur í ákveðnum tilfellum. Gögnin voru greind með kóðun og að hluta til með grundaðri kenningu.
Niðurstöður leiddu í ljós að með tilkomu tölvutækni, hefur merkjanleg breyting átt sér stað á fræðslustarfi fyrirtækjanna. Þróunin er þó mislangt á veg komin, og í engu tilfelli var um að ræða það sjálfsprottna nám gegnum félagsmiðla, sem nú einkennir mjög umfjöllun um tæknistutt nám. Tilskipuð fræðsla og kennsla á hugbúnað það sem helst er kennt fyrir tilstuðlan tækninnar, með námskeiðum á vef. Viðmælendur lögðu áherslu á að skapa slíkri fræðslu ákveðna umgjörð og veita starfsfólki bæði aðhald og hvatningu.
Draga má þá ályktun að tæknistutt nám eigi eftir að þróast frekar á tilteknum sviðum í þeim fyrirtækjum sem rannsökuð voru. Sökum smæðar og nálægðar flestra íslenskra fyrirtækja, er hins vegar líklegt að hefðbundin fræðsla eða bland beggja verði ráðandi í nánustu framtíð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Jórunn Magnúsd-tilbuin.pdf | 471,26 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |