is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7877

Titill: 
 • Skipan dómara á Íslandi. Fela breytingarlög um skipan dómara nr. 45/2010 í sér aukið sjálfstæði dómstóla?
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Dómstólar verða að vera sjálfstæðir og hlutlausir svo þeir uppfylli kröfur réttarríkisins. Krafan um sjálfstæða og óvilhalla dómstóla kemur skýrlega fram í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994.
  Það að dómstólar séu sjálfstæðir og hlutlausir er ein af aðalforsendunum fyrir því að dómstólar njóti trausts borgara þegar þeir sinna störfum sínum. Það er hins vegar ekki nóg að sjálfstæði dómstóla og hlutleysi þeirra sé tryggt með lögum, heldur verða dómstólar einnig að sína það í verki að þeim megi treysta, enda er um að ræða mikilvæg réttindi sem borgurum eru áskilin.
  Sú umræða hefur átt sér stað innan þjóðfélagsins, hvort að dómstólar geti í raun talist sjálfstæðir og hlutlausir við störf sín þegar það er á valdi eins pólitísks ráðherra að taka ákvörðun um skipan dómara. Umræðan á rétt á sér þar sem að því má halda fram að höggvið sé nærri sjálfstæði dómstóla þegar ráðherra, sem er einn af handhöfum framkvæmdarvaldsins, hefur skipunarvald í hendi sér. Dómstólar eiga að vera sjálfstæðir gegn öðrum handhöfum ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjskr. Framkvæmdarvaldið er í raun að seilast inn á svið dómsvaldsins og þar af leiðandi getur sjálfstæði dómstóla borið skaða af. Hætta er á að sá sem er skipaður dómari telji sig á einhvern hátt skuldbundinn þeim ráðherra sem sá um skipunina. Það eitt getur skaðað sjálfstæði dómstóls af þeim sökum að þeir sem sækja rétt sinn gætu farið að efast um hversu réttlát málsmeðferð málsins er.
  Sjálfstæði og hlutleysi dómstóla hefur í gegnum árin ekki verið nógu áberandi í framkvæmd ef marka má ummæli og skoðanir fólks. Þar af leiðandi er nauðsynlegt svo að tiltrú manna á dómstólum dofni ekki enn frekar, að standa vel að vali á þeim sem koma til með að sinna embætti dómara. Að málefnalega sé staðið að skipan dómara eflir réttaröryggi manna, þar sem menn geta fullvissað sig um það að mál þeirra hljóti réttláta meðferð.
  Þann 19. maí 2010 urðu breytingar á lögum um dómstóla nr. 15/1998. Umræða um að breyta reglunum um skipan dómara var alls ekki ný af nálinni. Breytingar sem slíkar eru hins vegar vandmeðfarnar, enda gegna dómarar mikilvægu hlutverki í íslenskri stjórnskipun. Hvert og eitt okkar gæti á einhverjum tíma lífsleiðarinnar þurft að leita til dómstóla hvort sem það er til þess að standa frammi fyrir því að sækja rétt okkar eða verja hann. Þess vegna varðar þetta málefni okkur öll.
  Í ritgerð þessari verður farið yfir hvernig staðið er að skipan dómara í réttarríki og þá einkum út frá kröfum um sjálfstæði dómstóla. Ég mun beina sjónum aðallega að því hvernig staðið var að skipan dómara áður en til lagabreyting nr. 45/2010 kom til, hvaða breytingar voru gerðar á lögum um dómstóla með þessum tilteknu breytingarlögum og þá hvort að þær breytingar sem þar voru gerðar hafi styrkt stöðu og sjálfstæði dómstóla enn frekar. Einnig mun ég tæpa á því hvernig staðið er að skipan dómara í Danmörku og Noregi og hvort að sú aðferð sem notuð er við skipan dómara þar sé sambærileg þeirri aðferð sem að notuð er hér á landi.

Samþykkt: 
 • 13.4.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/7877


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skipan dómara á Íslandi.pdf453.25 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna