Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7880
Af mörgum ástæðum getur það gerst að greiðsla frá einum aðila til annars misferst á einhvern hátt. Greiðslan getur á einn eða annan hátt verið gölluð, of lítið er greitt eða hún á sér hreinlega ekki stað. Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar eru ofgreiddar peningagreiðslur og ráðstöfun hins ofgreidda. Hverjir eru möguleikar manns sem borgar of mikið á að endurheimta það sem ofgreitt er? Gildir sambærileg regla um öll slík tilfelli? Þarf ef til vill að meta aðstæður sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig án þess að hægt sé að ganga út frá nokkru sem vísu?
Aðalumfjöllunarefni ritgerðarinnar er hver réttarstaða launþega er þegar hann hefur tekið við of hárri launagreiðslu og er krafinn um endurgreiðslu þess sem ofgreitt var. Svo að unnt sé að gera sér grein fyrir þessari réttarstöðu er nauðsynlegt að skoða til hlítar reglur þær er kunna að gilda um endurheimtu ofgreidds fjár.
Leitast verður við að gera þessum reglum ítarleg skil. Í öðrum kafla verður skoðað hvort hægt sé að slá fastri almennri reglu eða hvort sérsjónarmið ráði ríkjum og reglurnar um endurheimtu séu atviksbundnar. Eru fastmótaðar reglur um hvernig ráðstafa skuli ofgreiddu fé yfirhöfuð til? Ef svo er hversu langt ná slíkar reglur? Gilda þær reglur þá í öllum þeim tilvikum þar sem seinna kemur í ljós að ofgreitt hefur verið? Hver er grundvöllur kröfu um endurheimtu? Í leitinni að svörum við framangreindum spurningum verður leitast við að leiða kenningar fræðimanna á þessu afmarkaða sviði í ljós og þá sérstaklega norrænna fræðimanna þar sem íslenskur réttur tekur töluvert mið af norrænum rétti, einkum dönskum og norskum. Til samanburðar, og til að varpa betur ljósi á þau sjónarmið sem standa reglum um endurheimtu ofgreidds fjár að baki, verður einnig stuttlega vikið að engilsaxneskum rétti. Skoðað verður hvaða sjónarmið ráða þar ríkjum og þau borin saman við það sem tíðkast í norrænum rétti.
Með tilliti til þeirra reglna og sjónarmiða sem almennt eru talin gilda um enduheimtu ofgreidds fjár verður sérstaklega farið í saumana á því, í þriðja kafla, hvaða reglur gilda um endurheimtu ofgreiddra launa. Ber almennt að greiða til baka það sem launþegi fær ofgreitt eða ekki? Er yfir höfuð hægt að slá fastri gildandi meginreglu í þeim efnum? Er skilyrðum háð hvort hægt sé að fara fram á endurheimtu og ef svo er, hver eru þau skilyrði?
Til skýringar verður dómaframkvæmd á þessu sviði rannsökuð, bæði innlend og erlend, eftir því sem við á. Að lokum verður leitast við að álykta um hvort lagabótar sé þörf á reglum kröfuréttarins um endurheimtu ofgreidds fjár.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Radstofun_ofgreiddrar_krofu.pdf | 369.55 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |