Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/7883
Í þessari ritgerð verður fjallað um óskráðar réttarreglur sem gilda í íslenskum rétti um eignarformið sérstaka sameign. Reynt verður að styðjast sem minnst við settan rétt þar sem heildstæðri löggjöf um efnið er ekki til að dreifa og verða því óskráðar réttarreglur viðfangsefni þessa ritgerðarkorns. Verður fjallað almennt um eignarréttarhugtakið, eignarform og gerð grein fyrir aðgreiningu sérstakrar sameignar frá öðrum eignarformum í íslenskum rétti. Leitast verður við að lýsa grundvallareinkennum og þeim meginsjónarmiðum sem einkenna eignarformið en þau hafa eðli máls samkvæmt vægi þegar kemur að slitum á sérstakri sameign. Ekki eru þó tök á að fjalla ítarlega um allar þær sérreglur sem gilda um eignarformið enda væri slíkt efni í aðra ritgerð. Vegna þessa verður látið staðar numið við að gera í grófum dráttum grein fyrir gildi eignarformsins í íslenskum rétti.
Þá verður farið í að gera grein fyrir þeim meginreglum eignarréttar sem gilda um slit á sérstakri sameign. Meginreglurnar um slit sækja stoð sína í ákvæði 20. kapítula kaupabálks Jónsbókar en þau ákvæði eru einu almennu ákvæðin um slit sérstakrar sameignar í settum lögum. Verður því gerð grein fyrir efni ákvæðanna en samhliða verður lýst þeim túlkunarreglum sem hafa mótast og standa til fyllingar ákvæðunum. Mun sú umfjöllun í raun fela í sér skýringu á gildandi rétti. Í kjölfarið verða efnistök þrengd og þau þrjú skilyrði sem sett eru fyrir slitum tekin til sjálfstæðrar skoðunar. Mun uppbyggingin vera með þeim hætti að í upphafi verður inntaki hvers skilyrðis lýst en í framhaldi verður beiting viðkomandi skilyrðis í framkvæmd skoðuð. Tvö skilyrðanna má telja nokkuð matskennd, en það eru skilyrðin um skiptanleika eignar og um að slit sameignar leiði ekki til tjóns að þarflausu . Verður umfjöllun um þessi skilyrði því öllu ítarlegri en umfjöllun um þriðja skilyrðið að slit brjóti hvorki í bága við lög né samning.
Þegar litið er til þess hve lítið hefur verið skrifað á sviði eignarréttar um viðfangsefni þessarar ritgerðar, þess að reglurnar séu óskráðar og þess að samanburður við norrænan rétt sé torveldur, liggur fyrir að vægi dómaframkvæmdar í umfjölluninni er mikið. Dómaframkvæmd verður skoðuð samhliða umfjöllun um hvert skiptaskilyrði en í lokin verður reynt að draga ályktanir af dómaframkvæmd og sjónum sérstaklega beint að því hversu ríkar kröfur dómstólar gera til þess að fallist verði á kröfu sameigenda til slita á sérstakri sameign.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð.pdf | 308.23 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |