is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7924

Titill: 
 • Mótun dómstóla á réttarreglum í ljósi hinnar lagalegu aðferðar
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Það er einn af hornsteinum íslenskrar stjórnskipunar að dómendur fari með dómsvaldið. Í þessari ritgerð verður leitast við að varpa ljósi á hvort það vald feli í sér heimild til að móta réttarreglur og samspil slíkrar heimildar við hina lagalegu aðferð.
  Fjallað verður um þá skyldu sem lögð er á dómara í 61. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að fara einungis eftir lögunum og hvort hún útiloki dómara frá því að móta réttarreglur. Í þessu samhengi verður sérstaklega tekin til skoðunar hin lagalega aðferð sem endurspeglar ríkjandi viðhorf á hverjum tíma til að leysa úr lögfræðilegum ágreiningi. Hún kemur einna helst til skoðunar í tilvikum þar sem ágreiningur vaknar um hvað sé gildandi réttur, sérstaklega þegar svarið fæst ekki með einföldum lestri settra laga. Hin lagalega aðferð leitast meðal annars við að svara því hvernig túlka á lagaákvæði sem er óskýrt og á hvaða réttarheimildum eigi að byggja þegar sett lög fjalla ekki um það tilvik sem til úrlausnar er. Óræðu réttarheimildirnar meginreglur laga og eðli máls verða teknar fyrir en jafnframt verður fjallað um sett lög og afstaða tekin til þess hvort dómur geti aukið við inntak setts lagaákvæðis. Nokkrum orðum verður vikið að fordæmum og óhjákvæmilegu samspili fordæmisreglna og þeirra réttarheimilda sem þær byggja á. Einnig verður vikið að helstu meginreglum réttarríkisins og kröfu þess um að samfélög skuli lúta almennum lögum sem gildi jafnt um valdhafana sem aðra.
  Það leiðir af meginreglum réttarríkisins og stjórnskipun Íslands að dómstólar hafa mikilvægu hlutverki að gegna hér á landi. Dómurum getur verið skylt að komast að efnislegri niðurstöðu í málum og vaknar því spurning um hvernig komast skuli að lagalegri niðurstöðu þegar mótuð réttarregla leysir ekki úr ágreiningi. Gerð verður grein fyrir mismunandi skoðunum fræðimanna á mögulegum niðurstöðum í lögfræðilegu úrlausnarefni og hvaða áhrif það hefur geti dómari valið á milli tveggja eða fleiri jafnréttra niðurstaðna.
  Eitt af meginviðfangsefnum þessarar ritgerðar lýtur að samspili löggjafarvalds og dómsvalds og verða nokkur atriði þess tekin sérstaklega til skoðunar. Þannig verður meðal annars fjallað um óræða lagasetningu og hvernig löggjafinn hefur í ákveðnum tilvikum framselt vald sitt til dómstólanna. Rakin verða nokkur dæmi um viðbrögð löggjafans við dómum og ákvörðunum Hæstaréttar og gerð grein fyrir því hvenær slík viðbrögð eru eðlileg og hvenær ekki.
  Að lokum verða sett fram nokkur sjónarmið sem greina vald dómenda til að móta réttarreglur frá lagasetningarvaldi löggjafans. Horft verður til þess hvaða umboð dómarar hafa til að móta réttarreglur og hvort þeir þurfi yfirhöfuð slíkt umboð. Loks verður fjallað um hvort dómstólar geti sett réttarreglu á grundvelli annars en þess sem almennt er viðurkennt og fjallað um nokkra dóma þar sem Hæstiréttur hefur vikið frá hinni lagalegu aðferð.

Samþykkt: 
 • 15.4.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/7924


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA-ritgerð.pdf372.64 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna