Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8055
Þessi ritgerð er fræðilegur hluti meistaraverkefnis í blaða- og fréttamennsku við félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Í ritgerðinni er fjallað um fréttaflutning af landsbyggðinni hjá þremur stórum fjölmiðlum á Íslandi sem gefa sig út fyrir að vera landsdekkandi, það eru Morgunblaðið, Fréttablaðið og Ríkisútvarpið. Í fyrri hlutanum er fjallað um fréttnæmi og hvað hefur áhrif á fréttaval en vald og nálægð virðast vera stórir áhrifaþættir í því hvað ratar í fréttir. Í rannsóknarhluta ritgerðarinnar er kannað viðhorf til landsbyggðarfrétta hjá fjölmiðlunum þremur og hvernig fréttaflutningi af landsbyggðinni er háttað hjá þeim. Tekið var viðtal við útvarpsstjóra og sendar spurningar til ritstjóra dagblaðanna tveggja. Sendar voru spurningar til sextán fréttaritara og starfsmanna miðlana á landsbyggðinni. Markmiðið með rannsókninni er að varpa ljósi á það hvernig fréttaflutningi af landsbyggðinni er háttað hjá þessum þremur miðlum í dag og hvaða viðhorf starfsmenn og yfirmenn miðlana hafa til vinnslu frétta af landsbyggðinni.
Niðurstöður leiddu í ljós að það hafa allir áhuga á að sinna landsbyggðarfréttum, eru meðvitaðir um mikilvægi þess að sinna öllu landinu og telja sig vera að gera það af bestu getu, virðist það samt vera meira í orði en á borði því fréttaflutningur af landsbyggðinni er frekar dapur. Ríkisútvarpið hefur þá sérstöðu að vera miðill í ríkiseigu og er skyldugt til að fjalla um allt landið, enda er það sá miðill sem er með sterkasta starfsemi á landsbyggðinni og mest vægi landsbyggðarfrétta í sinni dagskrá. Í kjölfar samdráttar í efnahagslífinu undanfarin ár hafa miðlarnir mikið þurft að draga saman í starfsemi sinni og virðist það hafa bitnað á landsbyggðarfréttum. Þeir stefna samt allir á að standa sig betur með betri tíð þótt niðurstöður þessarar rannsóknar leiði að því líkur að svo verði ekki þar sem raunverulegur áhugi á því virðist ekki vera til staðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Blaðagreinar.pdf | 12.14 MB | Opinn | Fylgiskjöl | Skoða/Opna | |
Ritgerðin+loka.pdf | 685.86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |
Athugsemd: Blaðagreinar eru fjölmiðlahluti meistaraverkefnis. Geisladiskur fylgir prentuðu eintaki sem varðveitt er í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni