Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8130
Í þessari heimildaritgerð, sem er lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, verður tekin til umfjöllunar fjölskyldan í nútímasamfélagi og sú áhersla sem lögð er á barneignir í íslensku samfélagi. Ættleiðingar eru oft síðasta úrræðið ef barneignir ganga ekki vandræðalaust fyrir sig og verður fjallað um þær sérstaklega.
Það er óskráð viðmið á Íslandi að parsamböndum fylgi barneignir og áherslan á barneignir í samfélaginu er í samræmi við það. Það sést meðal annars á því að á Íslandi hefur fæðingartíðni verið rúmlega tvö börn að meðaltali á ævi hverrar konu en það er hærra hlutfall en gengur og gerist í Evrópu. Á Íslandi er það yfirleitt litið hornauga þegar par velur sér barnleysi því það fer í bága við viðmið samfélagsins. Það er þó ekki öllum ætlað að eignast börn á náttúrulegan hátt og samfélagið lítur í flestum tilvikum á ófrjósemi sem vandamál sem þurfi að leysa. Því getur myndast álag á par eða einstaklinga sem standa frammi fyrir því vali að annaðhvort sætta sig við ófrjósemi eða leita annarra leiða til að eignast barn. Ef sú leið er valin að leita annarra leiða eru nokkrar úrlausnir í boði fyrir parið eða einstaklinginn. Ættleiðingar eru oft síðasti kosturinn sem er nýttur. Þegar þar er komið við sögu hefur viðkomandi oft gengið í gegnum ýmislegt, svo sem tæknifrjóvganir og þá streitu sem þeim fylgir, til að uppfylla óskina eftir barni. Ættleiðingar eru langt ferli sem reynt getur á einstaklinginn og kostnaður er mikill. Ættleiðingar eiga að vera verndarúrræði fyrir barn, sumir vilja þó meina að þær þjóni fremur hagsmunum pars sem þráir að eignast barn. Félagsráðgjafar geta nýtt menntun sína til að veita pörum og einstaklingum ráðgjöf vegna erfiðleika tengdum ófrjósemi. Þeir gegna einnig mikilvægu hlutverki við að meta hæfni verðandi kjörforeldra til að sinna uppeldishlutverkinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Elsa Rós Smáradóttir og Sigrún Alda Sigfúsdóttir.pdf | 748.55 kB | Opinn | Skoða/Opna |