Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8135
Ritgerð þessari er ætlað að varpa ljósi á hvaða kröfur og þætti aðili þarf að uppfylla til að geta talist æskilegur eigandi að rekstrarfélagi verðbréfasjóða. Þá er jafnframt ætlað að sýna fram á hvaða áhrif siðferði, stjórnarhættir fyrirtækja og samsetning stjórnar rekstrarfélaganna getur haft þegar kemur að rekstri þeirra. Markmið verkefnisins er ekki að veita afgerandi svör við þeim rannsóknarspurningum sem lagðar voru fram heldur frekar að benda á kosti og galla þeirra atriða sem fjallað er um. Niðurstöður verkefnisins eru í meginatriðum þessar: Æskilegt er að stórir eigendur séu a.m.k. tveir, en þannig er hægt að tryggja aðhald bæði með stórum eigendum sem og framkvæmdastjóra félagsins. Eignarhald framkvæmdastjóra í rekstrarfélagi getur haft góð áhrif á afkomu og orðspor, en verði eignarhlutur framkvæmdastjóra of stór getur það valdið hagsmunaárekstrum og skaða á afkomu og orðspori félagsins. Miklar kröfur eru gerðar til fjárhagsstöðu rekstrarfélaga, og þá sérstaklega til eiginfjárstöðu þeirra. Því er mikilvægt að eigendur rekstrarfélaga séu fjárhagslega vel stæðir þannig að þeir geti tryggt rekstrarhæfi félaganna, lendi þau í fjárhagsvandræðum. Rannsóknir hafa sýnt að æskilegt sé að stofnanafjárfestar eigi hlut í fyrirtæki, en þessir aðilar eru líklegri til að geta beitt sér í eftirliti með framkvæmdastjóra en minni hluthafar. Þá hafa fjármálafyrirtæki mögulega meiri þekkingu á starfsemi og umhverfi rekstrarfélaga en aðrir eigendur auk þess að vera mögulega fjárhagslega sterkari og þar með líklegri til að geta tryggt rekstrarhæfi rekstrarfélaganna.
Siðferði og stjórnarhættir fyrirtækja geta haft áhrif á rekstur rekstrarfélaga, en innleiðing reglna um stjórnarhætti annars vegar og siðareglna hins vegar gæti aukið traust almennings á félögunum og þar með haft jákvæð áhrif á rekstur þeirra.
Fjallað er um mikilvægi þess að stjórnir rekstrarfélaganna séu óháðar félaginu sjálfu og stórum hluthöfum þess. En einnig er mikilvægt að stjórnarmenn hafi góða þekkingu á starfsemi og umhverfi rekstrarfélaganna og að þeir hafi tíma til að sinna stjórnarstörfunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Rekstrarfélög verðbréfasjóða - eignarhald og stjórnir.pdf | 1.48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |