Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8145
Tilgangurinn með þessari rannsókn er að kanna muninn á hlutverkum stjórnenda og leiðtoga innan skipulagsheilda. Skoðaður er sérstaklega munurinn á stjórnendum og leiðtogum og velt verður upp þeirri spurningu hvort það geti verið einn og sami einstaklingurinn. Ritgerðinni er þannig ætlað að staðfesta þá greiningu að þrátt fyrir að erfitt reynist oft að skilgreina muninn á stjórnenda annars vegar og leiðtoga hins vegar, þá sé sá munur skýr bæði innan fræðiheimsins, skipulagsheildanna sjálfra og í hugum þeirra sem þar starfa.
Ritgerðinni er skipt í tvo hluta. Sá fyrri er fræðilegur, þar sem farið er yfir ýmis hugtök tengd forystu, stjórnun, stjórnendum, leiðtogum og millistjórnendum. Síðari hlutinn er svo greining og niðurstöður á viðtölum sem tekin voru við stjórnendur innan Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar verður leitast við að veita lesandanum innsýn í störf stjórnendanna innan þeirrar skipulagsheildar sem lögreglan er.
Eigindleg rannsóknaraðferð er notuð við gerð rannsóknarinnar og voru tekin viðtöl við fjóra stjórnendur innan Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að varpa skýru ljósi á upplifun og reynslu þeirra sem stjórnendur innan lögreglunnar, auk þess sem skoðað er hvort þeir þekkja skilin á milli hlutverka stjórnenda annars vegar og leiðtoga hins vegar. Fjallað er um hvað árangursrík stjórnun og leiðtogamennska sé, hvað einkenni hana og hvaða meginkröfur og lykilatriði þurfi að uppfylla til að vera afkastamikill og árangursríkur stjórnandi eða leiðtogi. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er aðallega sóttur í fræðigreinar, rannsóknir og skrif um stjórnun innan skipulagsheilda.
Niðurstöður ritgerðarinnar gefa vísbendingar um að þrátt fyrir að fræðasamfélagið hafi fjallað um hlutverk stjórnenda og leiðtoga, stundum sem algjörlega aðgreinda eiginleika en oftar sem sitthvora hliðina á sama pening, sé það augljós niðurstaða að hér sé um ólík hlutverk að ræða sem kalli á ólíkar skilgreiningar og ólíkar kenningar. Niðurstaðan er einnig sú að munur á stjórnendum og leiðtogum sé ekki aðeins skýr og vel skilgreindur í fræðasamfélaginu, heldur einnig innan skipulagsheildanna sjálfra og hjá þeim sem þar starfa. Kenningar fræðasamfélagsins eru því staðfestar í þeirri skipulagsheild sem hér er skoðuð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS ritgerð_ Margrét Írena.pdf | 1.01 MB | Opinn | Skoða/Opna |
Athugsemd: Viðskiptafræði