is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8155

Titill: 
  • Bætur vegna brota á höfundarétti - Með sérstöku tilliti til bóta vegna brota á höfundarétti tónskálda og annarra rétthafa að tónlist
  • Titill er á ensku Compensation for Copyright Infringement
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Undanfarin ár hefur ólögleg dreifing á svokölluðum sjóræningjaútgáfum af tónlist, kvikmyndum og hugbúnaði orðið að ört vaxandi vandamáli á heimsvísu með tilkomu Internetsins. Talið er að það megi að hluta rekja til takmarkaðra varnaðaráhrifa þeirra viðurlaga sem sett hafa verið til höfuðs þátttakendum í sjóræningjastarfsemi. Viðfangsefni þessarar ritgerðar er fyrst og fremst að gera grein fyrir bótareglum 56. gr. höfundalaga og beitingu þeirra þegar brotið er gegn réttindum, sem fylgja tónverkum, en brot gegn slíkum réttindum eru meðal þeirra algengustu á sviði höfundaréttar í dag. Vandamálið við beitingu þessa réttarúrræðis hefur í gegnum tíðina einkum verið af tvennum toga. Annars vegar er oft gífurlega erfitt og í raun ógerningur fyrir rétthafa að sanna allt tjón sitt og hins vegar hafa rétthöfum verið dæmdar tiltölulega lágar fjárhæðir vegna tjónsins.
    Bótareglur höfundalaga eru um margt ólíkar almennum skaðabótareglum sem þykja ekki alls kostar heppilegar þegar rétthafar leita réttar síns í kjölfar höfundalagabrots. Til að takast á við þetta atriði hafa bótareglur vegna brota á hugverkaréttindum verið samræmdar í Evrópu með 13. gr. tilskipunar 2004/48/EB um fullnustu hugverkaréttinda, en Ísland hefur nú lagað bótaákvæði höfundalaga að greininni. Helstu nýmælin í 56. gr. höfundalaga í kjölfar aðlögunar ákvæðisins að 13. gr. tilskipunarinnar eru þau að nú er hægt að dæma bætur vegna hagnaðar hins brotlega og heimild er til að dæma tvöfalt endurgjald þegar umfang tjóns er illsannanlegt. Bætur vegna hagnaðar hins brotlega verða að teljast nauðsynleg viðbót fyrir varnaðaráhrif bótaákvæðisins, en hún á að koma í veg fyrir að þeir sem brjóta gegn höfundarétti líti á skaðabætur sem framleiðslukostnað af hagnaði sínum. Bætur í formi tvöfalds nytjaleyfisgjalds vegna atriða eins og útgjalda við hagsmunagæslu og tjóns vegna markaðsröskunar létta bæði á sönnunarvanda rétthafa og auka einnig á varnaðaráhrif 56. gr. höfundalaga, enda ljóst að afar takmörkuð varnaðaráhrif felast í því að dæma tjónvald til að greiða einungis einfalt nytjaleyfisgjald sem hann hefði hvort eð er þurft að greiða fyrir lögmæta hagnýtingu.
    Mikil réttarbót felst í því að nú sé mælt fyrir um heimild til að dæma öðrum rétthöfum en höfundum og listflytjendum miskabætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga. Hlutverk miskabótaákvæðisins er annars að öllum líkindum tvíþætt. Annars vegar að bæta höfundum og listflytjaendum ófjárhagslegt tjón, sem þeir verða fyrir vegna brota á sæmdarrétti þeirra, og hins vegar að vera til fyllingar skaðabótaákvæði höfundalaga í tilfellum þar sem rétthafi hefur ekki fengið allt fjárhagstjón sitt bætt á grundvelli skaðabótaákvæðisins. Telja verður að 56. gr. höfundalaga leggi ekki óeðlilegar byrðar á herðar þeim sem brjóta gegn rétti rétthafa. Á hinn bóginn virðist litlu mega við bæta svo að byrði hinna brotlegu verði meiri en norrænar hefðir í skaðabótarétti gera ráð fyrir. Ef auka þyrfti varnaðaráhrif bótanna enn frekar virðist vart annar möguleiki í stöðunni en að mæla fyrir um bætur sem gætu talist refsikenndar.

Samþykkt: 
  • 2.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8155


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsíða.pdf193.09 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Bætur vegna brota gegn höfundarétti_lokaeintak(020511).pdf943.54 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna