is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8157

Titill: 
  • Forræði aðila einkamáls á sönnunarfærslu
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Samkvæmt málsforræðisreglu einkamálaréttarfars er það í höndum málsaðila að afla og leggja fram sönnunargögn í einkamáli, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það er að meginreglu á þeirra valdi að ákveða hvort þeir færa sönnur á umdeild atriði og hvernig það verður gert. Markmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir því svigrúmi sem aðilarnir hafa til að færa fram sönnun í máli á þann hátt sem þeir kjósa. Umfjöllunin byggist einkum á greiningu á dómum Hæstaréttar Íslands um efnið, sem kveðnir eru upp á árunum 1994 til 2011. Er leitast við að draga ályktanir af dómunum um hvað sé fólgið í rétti aðila til að færa fram sönnun í máli og hvernig þeim rétti eru reistar skorður í lögum um meðferð einkamála.
    Í 2. kafla ritgerðarinnar er fjallað almennt um meginreglur einkamálaréttarfars, grundvöll þeirra og þýðingu í réttarframkvæmd. Í 3. kafla er gerð grein fyrir þeim meginreglum einkamálaréttarfars sem fjalla um verkaskiptingu aðila og dómara undir rekstri einkamáls, þ.e. samningsheimildarreglunni, málsforræðisreglunni og rannsóknarreglunni, en áhersla er lögð á málsforræðisregluna. Í 4. kafla er gerð grein fyrir nokkrum almennum atriðum um sönnun í einkamálum til að leggja grunn að umfjöllun um forræði á sönnunarfærslu, en það er viðfangsefni 5. kafla sem er þungamiðja ritgerðarinnar. Þar er fjallað um meginregluna um forræði aðila á sönnunarfærslu, þær röksemdir sem búa að baki reglunni og tengsl hennar við aðrar meginreglur einkamálaréttarfars. Jafnframt er leitast við að greina hvernig reglunni er beitt í dómum Hæstaréttar. Í framhaldi af því er fjallað almennt um hlutverk dómara í tengslum við sönnunarfærslu í einkamáli, þ.m.t. heimild hans til að benda aðilum á að afla gagna um ákveðin atriði sem og synja þeim um óþarfa sönnunarfærslu. Því næst er vikið stuttlega að forræði aðila á sönnunarfærslu í dönskum og norskum rétti og því álitaefni hvort forræðið nýtur verndar Mannréttindasáttmála Evrópu. Að því frágengnu er sjónum beint að forræði aðila á aðferð við sönnunarfærslu.
    Meginniðurstöður ritgerðarinnar eru þær að aðilar einkamáls hafa ríkt svigrúm til að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Hvorki er á valdi dómara né gagnaðila að takmarka þann rétt, nema sérstök heimild standi til þess. Í mörgum dómum er vísað til meginreglunnar um forræði aðila á sönnunarfærslu til stuðnings því að aðila sé heimilt að færa fram sönnun um tiltekið atriði eða gera það á ákveðinn hátt og mótmælum gagnaðila þar að lútandi hafnað. Aðili hefur að meginstefnu frjálsar hendur um hvaða aðferð hann beitir við sönnunarfærslu, en það svigrúm sætir þó ýmsum takmörkunum sem leiða af ákvæðum laga um meðferð einkamála. Þannig er aðila óheimilt að leiða vitni til að bera um sérfræðileg atriði og hefur hann takmarkað svigrúm til að byggja á sérfræðilegum álitsgerðum sem ekki eru unnar af dómkvöddum matsmönnum, svo að dæmi séu nefnd.

Samþykkt: 
  • 2.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8157


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forræði_aðila_einkamáls_á_sönnunarfærslu.pdf1 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna